14.02.1920
Neðri deild: 4. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 113 í C-deild Alþingistíðinda. (985)

2. mál, vatnalög

Magnús Pjetursson:

Jeg skal að eins nefna eitt eða tvö atriði, sem jeg ætlaði að leggja dálítið meiri áherslu á en hinir ræðumennirnir hafa gert, sem stutt hafa þá dagskrá, sem hjer er fram komin.

Og verð jeg því að taka í sama strenginn og hv. 1. þm. Reykv. (Sv. B.) um það, að hv 1. þm. Árn. (E. E.) skuli leggja svona órökstuddan sleggjudóm á þá menn, er greiða kunna þessari dagskrá atkvæði sitt; því að það eru að eins sleggjudómar, sem hann kveður upp, án þess að þeir hafi við rök að styðjast. Og tel jeg naumast vansalaust fyrir hv þm. (E. E.) að fara svo stórum orðum um hug þessara manna til sjálfs aðalmálsins, þar sem hann enga hugmynd getur haft um slíkt. Svo vil jeg leggja áherslu á annað, það, að mjer þykir hv. 1. þm. Árn. (E. E.) hafa farið þar nokkuð mikið kringum sjálfan sig og komið, vægast talað, undarlega fram, með því að hann hefir bæði nú og fyr, ásamt öðrum hv. þm., lagt áherslu á, að þetta þing verði sem styst. En svo tók hann það fram í sinni fyrstu ræðu um þetta mál, og ljet ótvírætt þá skoðun í ljós, að þetta mál bæri að taka fyrir og láta nefnd fjalla um það, og tilgangurinn var sá, að hún gæti komið fram með till. í því, svo að menn áttuðu sig betur á málinu. En hvernig ætti það að verða án þess, að menn ræddu málið ítarlega, en við það hlýtur þingtíminn að lengjast.

Það þarf þá að kjósa 12 manna nefnd í málið, því jeg tel sjálfsagt, að hv. Ed. vilji verða samferða, og bíða eftir því, að þessir 12 menn komi sjer saman, eða þá komi kann ske allir með till. í því, till., sem eiga að vera svo rökstuddar, að þjóðin geti áttað sig á þeim og haft not af þeim; þá hlýtur mjög mikill tími að fara í það, svo mikill, að jeg er sannfærður um, að þá verður þetta þing sumarþing að lokum.

Jeg lít svo á, að þegar talað er um að greiða atkv. um þessa dagskrá, þá sje í raun og veru verið að ræða um, hvort þetta þing eigi að verða langt eða stutt, og þeir, sem greiða dagskránni atkv., greiða um leið atkv með því, að þetta þing skuli ekki lengja að óþörfu, (Þór. J.: Heyr!) og sjest þá best, hver hugur fylgir máli hjá þeim, sem hæst hefir í látið um að stytta þingtímann.