03.05.1921
Efri deild: 61. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 926 í B-deild Alþingistíðinda. (1014)

20. mál, afstaða foreldra til skilgetinna barna

Forsætisráðherra (J. M.):

Fyrst og fremst er það nú alls ekki víst, að það hjóna, sem yfirgefur hitt, fari brott, heldur getur það eins vel orðið það, sem yfirgefið er. Hitt eru bara lagaorð.

Jeg tek það ekki aftur, að það geta verið töluverðir erfiðleikar á því að greiða fyrir hálft ár í einu. Einkum á þetta þó við um þá menn, sem taka laun sín mánaðarlega. Þeim gæti verið hægt að greiða mánaðarlega, en illmögulegt tvisvar á ári. Meðlag með börnum er varla svo hátt, að ekki sje hægt að komast einhvernveginn yfir það. En meðlag t. d. með konu getur orðið hátt, og þá erfitt að greiða út háar upphæðir, ef maðurinn situr með miklar eignir, þótt erfitt sje að koma þeim í verð.