19.02.1921
Neðri deild: 4. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 957 í B-deild Alþingistíðinda. (1060)

3. mál, fasteignaskattur

Fjármálaráðherra (M. G.):

Það hefir, að því er jeg best veit, jafnan verið álitið, að fasteignir hvers lands væri sjálfsagt að skatta, en um það, hversu skatti þessum skuli fyrirkomið og hversu hár hann skuli vera, hafa verið mjög deildar meiningar. Sumir álíta, að allir skattar eigi að hvíla á landinu, en landeigendur yfirleitt hafa, að vonum, víðast eða alstaðar sett sig á móti mikilli hækkun þessa skatts. Hjá oss hefir það verið svo, að húsaskattur hefir verið goldinn af húsum, ef þau hafa ekki verið notuð við ábúð á jörðu, en af jörðum hefir verið greiddur ábúðarskattur. Af lóðum og lendum, sem eigi hefir verið metið til dýrleika, hefir aftur á móti enginn fasteignaskattur verið greiddur. Af þessu leiðir, að kaupstaða- og kauptúnalóðir, þótt mjög verðmætar hafi verið, hafa verið skattfrjálsar til ríkissjóðs; en engum mun dyljast, að þetta er ekki rjett. Þetta frv. er bygt á þeim grundvelli, að hinn gildandi húsaskattur og ábúðarskattur falli niður, en í þess stað komi skattur á alt land eftir verðmæti og öll hús eftir verðmæti. Hversu hár þessi skattur á að vera, er vitaskuld álitamál, og jeg vil alls ekki standa fast á, að frv. hitti þar einmitt á hið rjetta, þótt það sje álit mitt, enda er í frv. gefin heimild til að hækka skattinn eða lækka með fjárlagaákvæði, og er þetta samskonar regla og ráðgerð er í frv. um tekju- og eignarskatt.

Eins og kunnugt er, hefir síðan í fyrra setið á rökstólum nefnd, er haft hefir það hlutverk að samræma hið nýja fasteignamat á landinu. Þessi nefnd hefir nú alveg nýlega lokið störfum sínum, svo að jeg hefi ekki enn haft tíma til að setja mig inn í störf hennar og tillögur. En víst er um það, að hún hefir hækkað töluvert matið á fasteignum landsins, svo að líkindi eru til, að skattur þessi nemi nokkru meiru en til er getið í aths. við frv. Hversu miklu munar, mun jeg geta skýrt frá síðar. Vera má einnig, að nauðsynlegt verði að breyta eitthvað fasteignamatslögunum, til þess að þau sjeu í samræmi við þetta frv., og mun jeg taka það til athugunar innan skamms, og koma með tillögur til breytinga, ef þurfa þykir.

Við þessa umræðu vil jeg ekki fara út í einstök atriði frv., en vona, að því verði vel tekið og að það fái greiðan gang gegn um þingið.

Frv. óska jeg, að verði vísað til fjárhagsnefndar, að lokinni þessari umr., og geri það að tillögu minni.