06.04.1921
Neðri deild: 36. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 963 í B-deild Alþingistíðinda. (1064)

3. mál, fasteignaskattur

Fjármálaráðherra (M. G.):

Jeg vil þakka háttv. fjhn. undirtektirnar og skal taka það fram, að jeg hefi lítið að athuga við brtt. hennar. Þó tekur mig dálítið sárt, að hún skuli hafa fært niður gjaldið. enda þótt hóglega sje í sakirnar farið.

Jeg vil leyfa mjer að skjóta því til hv. nefndar, viðvíkjandi 6. brtt., sem fjallar um, hvaða eignir ríkissjóðs skuli undanþegnar skattgjaldi, hvort eigi muni rjett að láta sama gilda um lóðir, sem standa á leigu. Sýnist mjer, að hjer standi mjög líkt á, og teldi jeg því heppilegra, að hv. nefnd vildi koma fram með brtt. við þetta atriði við 3. umr.

Háttv. nefnd hefir þótt varhugavert að aðhyllast ákvæði 9. gr. frv. óbreytt, og hefir því gert þá brtt., að 2/3 hlutar atkv. í Sþ. þurfi til hækkunar eða lækkunar á skattinum. Hefir hún viljað gera þetta til tryggingar, en mjer sýnist þetta óþarft, því þar eð eigi þarf nema einfaldan meiri hluta til að breyta lögunum, þá sýnist ástæðulaust að setja strangari skilyrði fyrir þessu ákvæði, þó að það sje sett í fjárlögin. Vil jeg því beina því til háttv. nefndar. hvort hún vilji ekki ganga frá þessari brtt. sinni.

Annars vakir sú hugsun fyrir erlendis, þar sem þessu er þannig fyrir komið, að með þessu sje ljettara að gera breytingar á fasteignaskattinum heldur en að breyta lögunum sjálfum.

Þá vil jeg víkja nokkrum orðum að viðaukatill. á þskj. 214. Jeg var nú að hugsa um að koma fram með frv. um gjöld til sýslusjóða, en vildi eigi gera það, fyr en jeg sæi, hvernig þessu frv. reiddi af. Annars heyrir það nánar undir atvrh. heldur en fjrh. En mjer dylst eigi, að breyting er nauðsynleg, því að með þessu frv., sem hjer liggur fyrir, er feldur burtu annar aðaltekjustofn sýslufjelaganna. Það er þess vegna full þörf á nýjum lögum, sem gangi lengra eða afli sýslu- og bæjarsjóðum meiri tekna en viðaukatill. þessi fer fram á. Jeg býst því fastlega við því, að bera fram frv. um þetta efni, því að jeg tel það altof mikla fyrirhöfn að leggja í lausafjárhundruð alstaðar á landinu, einungis til að ná þessum hluta í sýslusjóð.