06.04.1921
Neðri deild: 36. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 967 í B-deild Alþingistíðinda. (1068)

3. mál, fasteignaskattur

Jakob Möller:

Það er rjett hjá hæstv. fjrh. (M. G.), að til þess að breyta þessu ákvæði, sem nefndin vill setja inn í 9. gr., um, að 2/3 atkv. þurfi til samþyktar í Sþ., þarf ekki nema einfaldan meiri hluta. En sje það ákvæði lítils virði þess vegna, þá er líka tilgangslaust aðalákvæði 9. gr., um að skattinn megi hækka og lækka með ákvæði í fjárl., því að því má líka breyta með einföldum meiri hluta.

Annars finst mjer, að við till. nefndarinnar sje sá kostur, að menn athugi betur en ella, að hjer þarf íhugunar við.

En það var ekki þetta, sem jeg vildi einkum tala um, heldur afstaða flutningsmannanna til vatill. á þskj. 214. Þeir sögðust vilja mæta nefndinni á miðri leið, og mjer sýndist í fyrstunni, að jeg gæti aðhylst tillöguna, en svo rakst jeg á ártalið og sá, að þetta átti aðeins að gilda fyrir árið 1922, og því alls ekki um það að ræða að mæta nefndinni miðja vega, þar eð þetta á aðeins að falla til sýslu- og bæjarsjóða um svona skamman tíma, en síðan að falla í ríkissjóð. Yrði þá niðurstaðan af vatill. sú, að skatturinn fjelli allur í ríkissjóð að þessum tíma liðnum, með þeirri hæð, sem stjórnarfrv. ákveður hann, en nýr skattur yrði lagður á til sýslusjóða, og því er hjer ekki um neina miðlun að ræða.