11.05.1921
Neðri deild: 67. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1005 í B-deild Alþingistíðinda. (1099)

3. mál, fasteignaskattur

Fjármálaráherra (M. G.):

Jeg hefði helst óskað, úr því sem komið er, að hv. fjhn. hefði gengið inn á frv. eins og það kom frá háttv. Ed.

Er jeg hræddur um, að Ed. geri það að kappsmáli að hafa skattinn 4‰, og það veit jeg, að hún gengur aldrei inn á að hafa hann 214‰. Auðvitað fer málið þá í Sþ., en æskilegast hefði verið, að til þess kæmi eigi. Frv. er nú mjög líkt því sem það kom frá stjórninni, og er því engin ástæða fyrir hana að vera óánægð.

Um skattgjaldið af húsunum skal jeg taka það fram, að jeg er sammála háttv. 1. þm. Reykv. (Jak. M.), að ekki sje rjett að gera neinn mun á því, svo framarlega, að rjett sje metið. Tók jeg þetta fram í háttv. Ed., en fjekk það svar frá 3 af þeim, sem sitja í yfirmatsnefndinni, að hús í sveitum væru hærra metin hlutfallslega en hús í kaupstöðum, miðað við venjulegt söluverð. Jeg var ekki svo kunnugur matinu, að jeg gæti borið á móti þessu, og ef svona væri, þá er ástæða til þess, að einhver mismunur sje á skattgjaldinu.

Um 1. brtt. skal jeg taka það fram, að það upplýstist í Ed., að það mundi valda ósamræmi, ef þessi mannvirki síðustu 10 ára væru ekki undanskilin skatti nú. En það gildir aðeins þetta mat, en ekki framvegis. Þess skal jafnframt getið, að þetta mun eigi nema meiru en 7000 kr. lækkun á skattinum á ári.

Um 3. brtt. skal jeg geta þess, að það var skýrt sýnt fram á það af frsm. Ed., að þó skatturinn yrði 4‰, þá yrði hann samt eigi hærri en ábúðar- og húsaskatturinn mundi hafa orðið samkv. nýja matinu, því að báðir þessir skattar hefðu hækkað mjög mikið.