23.04.1921
Neðri deild: 50. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1183 í B-deild Alþingistíðinda. (1204)

41. mál, fjárlög 1922

Pjetur Þórðarson:

Það eru ummæli nokkurra háttv. þdm. um styrkinn til búnaðarfjelaganna, sem kom mjer til þess að standa upp. Mig furðaði satt að segja á að heyra reynda búhölda, eins og háttv 2. þm. N.-M. (B. H.), háttv. þm. N.-Ísf. (S. St.), hv. þm. Borgf. (P. O.) og háttv. 2. þm. Skagf. (J. S.), viðhafa þau ummæli, er þeir höfðu. Jeg get ekki skilið, eftir hvaða reglum ætti að úthluta styrknum, öðrum en þeim, sem nefndin hefir sett. Ef t. d. ætti að fara að binda styrkinn við verkfærakaup, þá hygg jeg, að margur mundi brosa, því að bændur eru ekki svo fyrirhyggjulausir, að þeir hafi ekki trygt sjer verkfæri til þess, sem þeir ætla að láta gera. Og þau verkfæri, sem þeir þyrftu helst, væru þá svo dýr, að þeir yrðu að geyma styrkinn í mörg ár, áður en hann gæti komið að notum.

Um leið vildi jeg minnast á eitt atriði í frv. Það er 16. gr. 4., skógræktin. Liðurinn er í tvennu lagi: a. laun 14,080 kr. og b. laun skógarvarða og til skógræktar 9000 kr. Nú þætti mjer betur að fá að vita hjá hæstv. atvrh. (P. J.), hvort b-liðurinn er ætlaður að nokkru leyti til launa, eða líka til skógræktar.

Svo er mál með vexti, að maður einn í Mýrasýslu, sem á jörð með allmiklu skóglendi, hefir boðið skógræktarstjóra að gefa landinu landspildu nokkra, í því skyni, að þar verði sett upp skógræktarstöð eða plantekra. En til þess að koma þessu í kring, þarf nokkurt fje. Það þarf að gera girðingu alt að 200 m. langa. En svo stendur nú á, að girðingarstólpar frá skógræktinni eru einmitt til í Borgarnesi. Og þar sem mjer er kunnugt, að þessi maður vill gjarnan láta landinu í tje nokkra vinnu, líka ókeypis, þá hygg jeg, að hann mundi ekki telja eftir sjer að flytja þá á staðinn. Líka má benda á það, að margir vilja nú fá plöntur til þess að gróðursetja heima, kringum hús sín og bæi. Hefir þessi sami maður gert talsvert að því að láta menn fá þær, jafnvel hingað til Reykjavíkur og víðar.

Nú vildi jeg fá að vita, hvort hægt væri að taka þessu tilboði. Mjer er kunnugt, að skógræktarstjóri er þess mjög fýsandi, en hann telur sig þurfa til þess meira fje en hann hefir úr að spila. Og ef jeg fæ það svar, að ekki sje hægt að taka það af þessari fjárveitingu, þá hygg jeg, að jeg finni mig knúðan til að koma með brtt. um hækkun á þessum lið til 3. umr.