30.04.1921
Neðri deild: 59. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1267 í B-deild Alþingistíðinda. (1230)

41. mál, fjárlög 1922

Fjármálaráðherra (M. G.):

Jeg skal vera stuttorður og tala ekki um allar brtt., en aðeins þær, sem mjer finst helst athugaverðar.

Mjer sýnist háttv. fjvn hafi farið of langt niður í 11. brtt. Jeg hefði getað gengið inn á samþ. 4 eða 5% af styrkupphæðinni, en alls ekki 3%. Mjer finst það sanngjarnt, að þeir, sem fá afnot prestsetursins, greiði 5% af kostnaði endurbótarinnar.

17. brtt., um að styrkja útgáfu bókar um norræn viðurnefni, er allóþörf, og skil jeg ekki, að hún fái mörg atkvæði. Er slíkt að leika sjer með fje sem fáráðlingar, á tím um eins og þeim, sem nú standa yfir.

Sama er að segja um næstu brtt., 1. þm. Árn. (E. E.). Jeg get fylgt hinni brtt. frá sama þm. (E. E.J, um að spara 5000 kr., en hreint ekki þessari. Mjer finst þessi brtt. vera nokkuð út í bláinn, þar sem engin skilyrði eru sett fyrir fjárveitingunni. Ef bók þessi væri gefin út, sem vitanlega er æskilegt, þá mundi hún fá svo mikinn kaupendafjölda, að útgáfan gæti vel borgað sig styrklaust. Og þótt enginn vilji gefa bókina út nú, á meðan útgáfan er sjerstaklega dýr, þá sje jeg ekki neitt voðalegt í því, þótt það dragist 2–3 ár enn.

Þá er 24. brtt., frá háttv. þm. Barð. (H. K.), um eftirgjöf á láni til Suðurfjarðarhrepps, vegna raforkustöðvarinnar, Jeg heyrði því miður ekki alla ræðu hv. þm. (H. K.), en mjer skilst, að þessi eftirgjafarbeiðni sje bygð á því, að hreppurinn hafi skaðast á pípukaupum til raforkustöðvarinnar. Hefir svo málið verið lagt í gerð, og hreppurinn tapað. Jeg veit ekki, hverjir hafa setið í gerðardómi þeim, sem dæmdi málið, en jeg býst við, að það hafi verið sanngjarnir og óvilhallir menn. En samkvæmt dómnum hefir sökin ekki legið hjá seljanda, heldur hjá hreppnum. Auk þess gæti það komið hart niður á ríkissjóði, ef menn fara að taka þann sið upp, að fá fyrst lán, og koma svo 2–3 árum seinna og biðja um eftirgjöf.

Út af Vestmannaeyjabátnum vil jeg geta þess, að þm. verða að athuga það, að ef hann kemst bæði í fjárlögin og fjáraukalögin, þá er hann orðinn fastur útgjaldaliður í okkar fjárlögum. Þetta er mjög þung byrði. eins erfitt og nú er í búi, og 40 þús. kr. styrkur svarar til vaxta af nærri milj. kr. Háttv. þm. verða að athuga, að þegar þeir samþykkja þetta, samþykkja þeir í raun og veru að setja 1 milj. kr. fasta í þessu skyni.

Háttv. frsm. (B. J.) benti á, að ef till. væri samþykt, mætti ná kostnaðinum upp með því að leggja skatta á sjávarútveginn. Þá er náttúrlega öðru máli að gegna. En hræddur er jeg um, að það þætti ósanngjarnt.

Þá er 27. brtt., frá háttv. þm. Ísaf. (J. A. J.), um 10 þús. kr. styrk til sjómannahælis og gistihúss Hjálpræðishersins á Ísafirði. Mjer datt það í hug, þegar styrkurinn til gistihússins í Hafnarfirði var samþyktur hjer, að hann myndi draga dilk á eftir sjer. Og hjer er líka fyrsta afkvæmið. Jeg vona, að háttv. deild fari ekki að gera það að venju að veita fje til gistihúsa. Dilkarnir gætu orðið nokkuð margir áður en langt liði.

Þá er lífeyrir hjónanna á Staðarfelli. Jeg veit ekki annað en gjöfin hafi verið þegin, og get jeg viðurkent það, sem frsm. (B. J.) sagði, að þetta er sæmdargjöf. En jeg hjelt ekki, að lífeyririnn ætti að koma í fjárlögin. Jeg bjóst við, að eftirgjaldið ætti að ganga til þess að greiða hann. Það getur verið, að eftirgjaldið nægi ekki, en þó er það ekki víst. Jeg bjóst undir öllum kringumstæðum við, að lífeyririnn væri ríkissjóði óviðkomandi, því að ef eftirgjaldið nægir ekki, mundi Herdísarsjóðurinn, sem jörðin var gefin, borga mismuninn. Nú sýnist mjer, að nefndin ætli að gefa Herdísarsjóði, ekki einungis mismuninn, heldur alla hina árlegu greiðslu til Staðarfellshjóna. Þessu vil jeg mótmæla, og mun gera mitt til að fá þessu breytt í háttv. Ed., ef það gengur hjer í gegn.

Hækkunin til Páls Erlingssonar gerir ósamræmi í 18. gr. Jeg hefi auk þess sjeð í blaði hjer, að hann hefir eftirlaun úr bæjarsjóði, sem ekki eru lægri en þetta. Hann kemur þá til með að hafa yfir 3000 kr. í eftirlaun, því að eins og kunnugt er, er reiknuð dýrtíðaruppbót af liðunum í 18. gr. Þetta verða þá nokkuð há eftirlaun, og getur orðið til að skapa óánægju meðal þeirra, sem eftirlaun hafa. Jeg held að það nægði fyrir hann að hafa 500 kr. úr ríkissjóði, auk dýrtíðaruppbótar.

Jeg vil mæla með styrkveitingunni til ekkju Þorsteins fiskimatsm. Guðmundssonar. Þar stendur alveg sjerstaklega á, því að sá maður hefir unnið okkur gagn, sem ef til vill nemur tugum miljóna, með því að koma nýju skipulagi á fiskmeðferð hjer á landi og fisksölu á Spáni og Ítalíu.

Jeg býst við því, að háttv. nefnd hafi sannfært sig um, að endurgreiðslukrafa Ásgeirs Pjeturssonar sje á rökum bygð. Ef svo er, er vitanlega sjálfsagt, að hann fái henni fullnægt. En jeg vil benda á það, að 19. gr. er of lágt áætluð. Það er þó ekkert nýtt, því að sú grein hefir altaf farið fram úr áætlun.

Um lánsheimildina til kaupa á Hjarðarholti er það að segja, að slíkar heimildir verða því aðeins notaðar, að fje sje fyrir hendi í viðlagasjóði. En jeg get tekið það fram, að það eru engar líkur til, að svo verði á þessu ári, einkum þar sem háttv. deild hefir samþ. að leggja hann til ríkisveðbankans, gegn 2% vöxtum, svo að peningar í þessum sjóði verða engir eða mjög litlir. Það gerir því lítið til, þótt þetta verði samþykt. En jeg vil vara háttv. þm. við því að kveikja vonir í brjósti manna um svona lagaðar lánveitingar. Því að það er sannleikur, að það yrðu aðeins tálvonir.

Þá er XXXV. brtt., um að ríkið ábyrgist 1/2 miljónar lán til klæðaverksmiðjunnar á Álafossi. Það er rjett hjá háttv. frsm. (B. J.), að það ei nauðsyn að koma á fót góðri klæðaverksmiðju. En eigi að gera það á þennan hátt, þá verður að fara varlega í sakirnar. Þetta er nokkuð há upphæð, ef taka á hana í einu lagi. (M. P.: Á þrem árum). Þá er heimildin fallin burt, því að hún gildir aðeins fyrir eitt ár, 1922.

Mjer er ekki ljóst, hvað háttv. frsm. (B. J.) meinti með því, að stjórnin mundi sjá um aðrar tryggingar. Jeg veit ekki, hvort hann hefir átt við veð, eða sjálfskuldarábyrgð eða eitthvað annað. Ef hann hefir átt við það, þá eru litlar líkur til að það fáist, vegna þess hvað upphæðin er há. Það mundi reynast ókleift að fá nægilegt veð fyrir svo hárri upphæð, og ef ætti að fá sjálfskuldarábyrgð fyrir henni, þá yrði að skifta henni í smærri upphæðir, því að það er ómögulegt að fá neina menn hjer til að ábyrgjast hálfa miljón. Það væri nokkuð annað, að setja 100 þús. kr. upphæð hvert ár, og sjá svo hverju fram vindur.

Þá er síðasta till. frá háttv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.). Þó að jeg, af skiljanlegum ástæðum, ætli mjer ekki að fara að mæla með henni, þá verð jeg að segja, að mjer fanst þeir 3 háttv. þm., sem um hana hafa talað, vera óþarflega harðorðir í garð tillögumanns. Mig furðar líka dálítið á því um nefndarmennina, því að eftir nál. að dæma, hefir nefndin einmitt haft í huga, að þetta gæti komið til mála á næsta þingi. Synd háttv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) virðist því aðeins vera í því fólgin, að till. hans sje of snemma fram komin. (M. P.: Það hefir aldrei verið hugsað um svo víðtæka heimild). Nei, það er satt, en svipað hefir vakað fyrir nefndinni 1917, þar sem hún heimilaði þá að fresta ýmsum framkvæmdum.

Jeg vil segja háttv. 1. þm. Rang. (Gunn. S.) það, að stjórnarskrárbrot er þetta ekki. (Gunn. S.: Það er á móti anda stjórnarskrárinnar). Ónei, ekki heldur.

Hitt er satt, að varla er hægt að gera nokkrum fjármálaráðherra verri grikk, persónulega, en að veita honum slíka heimild og þessi er. Ef hann sparar, þá á hann vísa óþökk þeirra, sem fjeð eiga að fá, og allra, sem þeim fylgja að málum. En ef hann er ósparsamur, þá á hann vísa óþökk þeirra, sem vilja láta hann beita heimildinni. Það er því lítil ástæða fyrir mig að vera að falast eftir þessari heimild, enda mun jeg ekki gera það.

En það getur þó hugsast, að slíkar kringumstæður væru fyrir hendi, að einhver fjármálaráðherra, hvort sem það væri jeg eða einhver annar, áliti sjer rjett og skylt að leggja sitt góða nafn (M. P.: og ,,Rygte“) já, og „Rygte“, í sölurnar, til þess að reyna að bjarga við fjárhagnum. Jeg vil því alls ekki taka undir hinar þungu ákúrur á háttv. flm. till. (J. Þ.).

Það má bera það saman, að háttv. fjvn. leggur til, að stjórninni verði falið að taka ábyrgð á og hafa eftirlit með hálfrar milj. kr. láni. Með því er henni veitt heimild til að gera ráðstafanir, sem geta haft stórmikil áhrif á fjárhag landsins, og ætti henni þá ekki síður að vera treystandi til þess að spara á rjettum liðum. Og jeg vil taka undir þau ummæli eins háttv. þm., að engin óvitlaus stjórn mundi loka Vífilsstaðahælinu fyr en í fulla hnefana. Það er rjett hjá háttv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó), að þessari heimild mundi fyrst verða beitt við ýmiskonar framkvæmdir. Hjá því væri ómögulegt að komast.

Út af þeim ummælum, sem fallið hafa um tekjuhalla, þá vil jeg geta þess, að þegar jeg lagði fram fjárlagafrv. stjórnarinnar í byrjun þings, þá benti jeg á, að ef tekjufrumv. stjórnarinnar yrðu samþykt eins og jeg lagði þau fram, þá yrði enginn halli á fjárlögunum fyrir 1922. Ef menn vilja finna hallann, sem verður, þá er ekki annað en reikna viðbót þá við útgjöld fjárlaganna, sem samþykt eru og verða við 2. og 3. umr. þeirra, og leggja þar við þá rýrnun, sem orðið hefir á tekjunum, samkvæmt breytingum á tekjufrv. frá því, er þau komu frá stjórnarinnar hendi. Að vísu er enn ekki víst um forlög þeirra allra.

Jeg býst ekki við að taka til máls aftur, en vil leyfa mjer að brýna fyrir háttv. þm. að sýna sparsemi við atkvæðagreiðsluna. Þess er full þörf. Vjer erum á fjárhagslegum villigötum, er liggja til glötunar, ef áfram er haldið.

Háttv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) áleit, að háttv. fjvn. hefði átt að fella niður óþarfa liði úr stjórnarfrv. Jeg hygg þó, að það sje rjett, sem háttv. frsm. fyrri hluta fjárlaganna (M. P.) sagði, að þeir sjeu undra fáir.