07.05.1921
Efri deild: 64. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1316 í B-deild Alþingistíðinda. (1260)

41. mál, fjárlög 1922

Frsm. fjvn. (Sigurður Hjörleifsson Kvaran):

1. brtt. við 15. gr. er um aðstoðarmann við landsbókasafnið. Nefndin er mótfallin því, að verið sje að taka fram í fjárlögunum, hvaða menn starfi í opinberum stöðum. Þar með er ekki verið að mæla á móti þessum manni, heldur er það principmál, að ekki eigi við, að verið sje í fjárlögunum að veita stöður, enda gæti maðurinn verið dáinn þegar þessi lög ganga í gildi. Að öðru leyti hefir nefndin fallist á þá fjárhæð, sem farið er fram á í frv., eins og það kom frá háttv. Nd. Þó með þeim skilningi, að maðurinn sje fastur ársmaður. Hjer er um allmikla hækkun að ræða, og telur nefndin því sjálfsagt, að eitthvað komi í móti.

Næst koma listaverkakaupin. Eftir frv. eins og það kom frá háttv. Nd., eru þar veittar 5000 kr. til þeirra, en nefndin hefir fært það niður í 3000 kr., og er það gert af fjárhagslegum ástæðum.

Þá kemur næst brtt. um skýrslur þjóðmenjasafnsins um það, að forstöðumanni verði veittar 300 kr. til skýrslusamninga. Þessi maður hefir áður haft lítið kaup, en er nú einn af hæst launuðu mönnum landsins. Þykir nefndinni því ekki of mikið, þótt hann inni þetta verk af hendi, án sjerstaks endurgjalds. Auk þess hefir hæstv. stjórn ekki farið fram á þessa fjárveitingu, en mælt heldur á móti henni.

Næsta brtt. er um Náttúrufræðifjelagið. Það hefir int mikið starf af hendi og virðingarvert. Nefndin hefir því hækkað styrkinn til þess um 700 kr.

Þá kemur Bókmentafjelagið. Styrkurinn til þess er látinn vera sá sami og áður var, en svo er hjer bætt inn nýjum lið, til þess að gefa út registur yfir brjef þau, sem þegar eru út komin. Menn kvarta mjög undan því, að þau verði ekki að notum, meðan ekki er komið út registur við þau öll; registur þarf að fylgja hverju bindi, og telur nefndin því rjettara að gefa út registur heldur en halda áfram útgáfu brjefanna sjálfra. En ekki verður komist hjá, að þetta verði dýrt. Það er mikið verk að semja slíkt registur, og meira en að gefa út eitt bindi af fornbrjefum safnsins. Auk þess er prentun þess dýrari en alment gerist. — Þrátt fyrir alt telur þó nefndin fulla þörf þessarar fjárveitingar.

Þá kemur nýr liður, um styrk til Þórbergs Þórðarsonar til að safna orðum íslenskrar alþýðu. Þessi till. var feld í hv. Nd., þrátt fyrir meðmæli fjvn., og hefir nefndinni þótt ástæða til að taka hana upp aftur. Starfið er nýlega hafið, og ilt að hætta svona í miðju kafi. Lítur nefndin svo á, að það sje nokkur metnaður fyrir þessa þjóð, að sýna tungu sinni sem mestan sóma. Og það teljum við þýðingarmikið fyrir íslenska tungu að safna sjaldgæfum orðum víðsvegar um landið og geyma þau svo, að þau glatist ekki, eins og ella er hætt við. Telur nefndin því rjett, að þessari söfnun sje haldið áfram.

Ef vel tekst til með þetta safn, þá er þar með drjúgum aukinn málsauður vor.

Næst kemur till. um hækkun styrksins til Bjarna Sæmundssonar. Þessi ágæti vísindamaður hefir um mörg ár unnið ötullega að fiskirannsóknum hjer við land, og vill því nefndin sýna honum viðurkenningu og hækka styrkinn upp í 2000 kr. Hins vegar sá nefndin ekki ástæðu til að hækka styrkinn til Helga Jónssonar, sem ávalt hefir haft hærri styrk en Bjarni. Honum er í stjórnarfrv. ætlaðar 2000 kr., en háttv. Nd. hefir hækkað það upp í 3000 kr. Nú treystir nefndin sjer ekki til að gera upp á milli þessara tveggja vísindamanna, og hefir því aftur lækkað styrkinn niður í 2000 kr.

Um lögfræðitímaritið þarf jeg ekki að tala nú, þar sem jeg hefi áður gert það í sambandi við önnur tímarit.

Næstu liðir, 33.–36. brtt., eru allir orðabreytingar, og þarf jeg ekki að fara neitt út í það. Nefndinni þótti rjettara, að styrkurinn til þessara þriggja námsmanna hjeti heldur lokastyrkur en námsstyrkur, og að því er snertir Ingu Magnúsdóttur, þá þótti nefndinni rjett, að styrkurinn hjeti utanfararstyrkur, þar sem hún ætlar að sigla til Englands til þess að fullkomna sig í enskri tungu.

37. liður er aðeins orðabreyting.

38. liður er ekki efnisbreyting, að því er upphæðina snertir, en sumum nefndarmönnum þótti betur við eiga, að þessi styrkveiting til Einars Jónssonar myndhöggvara væri bundin við eitthvert starf í þágu safnsins.

Þá kemur liðurinn um styrkinn til búnaðarfjelaga. í frv., eins og það kom frá háttv. Nd., er ætlast til þess, að utanfararstyrk sje varið til verkfærakaupa og annars slíks. Nefndin verður í þessu efni íhaldssöm og vill halda sig að því, sem áður hefir verið, því að hún telur fengna reynslu fyrir því, að styrkveiting, miðuð við dagsverkatölu, hafi verið mönnum mikil uppörfun til jarðabóta í landinu. Álítur nefndin varhugavert að breyta þessu; telur hún vafasamt, að það skipulag sje á búnaðarfjelögum úti um landið, að trygging sje fengin fyrir því, að fje þetta komi að tilætluðum notum, ef því væri þannig ráðstafað, eins og frv. leggur til.

Þá er næst 40. till., um raforkunotkun. Nefndin hefir í nál. gert grein fyrir því, hvernig hún lítur á það mál. En síðan nefndin átti síðast fund, hafa komið nýjar upplýsingar í málinu, og tel jeg því rjettast að taka málið af dagskrá og geyma það til 3. umr.

Viðvíkjandi 43. brtt. skal jeg geta þess, að þar er aðeins farið fram á, að orðið „hreppstjóri“ falli niður. Nefndin telur það verðskuldað, þótt þessi maður fái slíka viðurkenningu, en er hins vegar mótfallin því að binda hana við hreppstjóratitilinn, því að henni er fremur lítið um hreppstjóraverðlaunin, meiri hluta hennar, og er það að vísu af fjárhagslegum ástæðum, en ekki af því, að ekki sje margt manna í þeirri sveit, sem vel gæti átt viðurkenningu skilið.

Næst kemur styrkurinn til björgunarskipsins Þórs. Þetta mál hefir verið allmikið rætt, bæði innan þings og utan, og sje jeg ekki, að neitt sje unnið við að taka nú aftur upp ræður þær, sem nýlega hafa verið fluttar hjer í háttv. deild. En það vill nefndin benda á, að það er öðru máli að gegna nú en síðast. Þá var að ræða um styrk til þess að greiða áfallinn kostnað, en nú um styrk til framtíðarinnar. Það sýnist mega ætlast til þess, að hlutaðeigandi sýslufjelag geti hagað útgerðinni svo, að þetta verði tiltölulega ekki óálitlegri styrkur en sá, sem veittur er í fjáraukalögunum.

Þá hefir verið samþykt í hv. Nd. 1800 kr. fjárveiting til greiðslu kostnaðar við skurðgröftinn í Miklavatnsmýri. Nefndin er fremur ókunn því máli, en víst er það, að síðan síðasta fjárveiting til þessa var veitt, hafa engar nýjar upplýsingar komið fram því máli viðvíkjandi. Á síðasta fjárlagaþingi var farið hjer fram á 4800 kr., en veittar aðeins 3000 kr., og lítur út fyrir, að svo hafi verið til ætlast, sem það væri lokaveiting.

Á „Sindra“ hefi jeg þegar minst, og þarf því ekki að tala frekar um það nú.

45. liður er um það að fella niður styrkinn til Þórdísar Ólafsdóttur, til handavinnukenslu. Má búast við, að ef farið verður að veita styrk til slíks, þá komi brátt fleiri á eftir, og hvar á svo að nema staðar?

Nefndin hafði vegna tímaskorts ekki tækifæri til þess að athuga þau skjöl, sem lúta að Staðarfellsgjöf, og sá því ekki ástæðu til að gera till. um það, hve hár eigi að vera æfistyrkur hjónanna, sem gefið hafa gjöfina. En hitt þykir henni sjálfsagt, að eftirgjald jarðarinnar renni í ríkissjóð.

Þá er næst styrkur til Janusar Jónssonar, sem nefndin hefir hækkað úr 320 kr. upp í 500 kr. Hjer er að ræða um þjóðkunnan merkismann, og væntir nefndin þess, að ekki verði amast við þessari hækkun.

Þá kemur nýr liður, um fjárveiting til ekkju Stefáns Stefánssonar skólameistara, og er hún 450 kr. Eftirlaun þessarar ekkju eru fremur lág, því að Stefán varð ekki gamall maður. Hins vegar mun Stefán heitinn ekki hafa safnað fje, og verða því föstu eftirlaunin sjálfsagt ónóg. Með því að hjer er að ræða um ekkju eftir þjóðkunnan mann, þá vill nefndin mæla með því, að hún fái þá viðbót, sem hjer er ákveðin.

49. lið má nefndin til að taka aftur, af þeirri ástæðu, að nýjar upplýsingar hafa komið fram í málinu. Nefndin hafði felt niður þessa fjárveitingu, af því að hún hjelt, að maðurinn væri andaður, en nú er það komið upp úr kafinu, að hann sje í fullu fjöri, og tekur því nefndin að sjálfsögðu aftur liðinn.

Þá er næst viðbót við styrkinn til ekkju Jóhanns Sigurjónssonar. Sú upphæð, sem hjer er farið fram á, er að sjálfsögðu án dýrtíðaruppbótar. Um verðleik Jóhanns heitins þarf jeg ekki að tala hjer, og fer jeg því ekki frekar út í það.

51. brtt. er aðeins orðabreyting. Okkur þótti rjettara að hafa það svo, sem hjer væri að ræða um dýrtíðarstyrk, en ekki eftirlaun.

Þá er komið að láninu til aukinnar rafveitu á Seyðisfirði. Þetta er nýr liður, þar sem nefndin leggur til, að Seyðisfjarðarkaupstað sjeu veittar alt að 120 þúsund kr. til 30 ára, með 6% ársvöxtum, og verði fje eigi fyrir hendi, þá sje stjórninni gefin heimild til að ábyrgjast lán fyrir kaupstaðinn, alt að þessari upphæð.

Síðast er að ræða um heimild til að ábyrgjast hátt lán fyrir verksmiðjuna Álafoss. Hjer er úr vöndu að ráða. Fjárhæðin er há, og gæti orðið nokkuð útdráttarsamt fyrir ríkissjóð, ef illa tækist til. En einnig er mikið að vinna, ef vel tækist, þar sem hjer er um það að ræða, að fá unnið eitt af því efni, sem landið hefir til að leggja, og gera það að verðmætari vöru en annars, og gera það í landinu sjálfu, og auka með því efni þess á ýmsan hátt. Ekki voru allir nefndarmennirnir með því að veita þessa heimild, en öllum kom okkur saman um, að orðalagið, eins og það kom frá Nd., væri ekki fulltryggilegt, og því tókum við upp þetta orðalag. Verður hver að meta það með sjálfum sjer, hvernig honum fellur þetta orðalag og hvernig honum líst á þessa ábyrgðarheimild.