07.05.1921
Efri deild: 64. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1333 í B-deild Alþingistíðinda. (1267)

41. mál, fjárlög 1922

Forsætisráðherra (J. M.):

Jeg heyri sagt, að hæstv. atvrh. (P. J.) hafi ekki minst á eina brtt., sem ekki kemur mjer beint við, en það er fjárveiting, sem jeg verð að segja, að mjer er töluvert ant um, og það er fjárveiting til leiðbeiningar um raforkunotkun.

Í fjárlagafrv. er lagt til, að veittar sjeu 10 þús. kr. til leiðbeiningar um raforku. Þótt þessi fjárveiting sje ekki há, þá getur hún komið að talsverðum notum. Nú er vaknaður áhugi um að notfæra sjer vatnsaflið til raforku, og margir, sem óska leiðbeininga sjerfróðra manna um þessi mál.

Það var af sjerstökum ástæðum, að athygli mín var vakin á þessu máli í fyrra. Borgfirðingar sýndu mikinn áhuga, er þeir hófust handa um að byrja á að láta rannsaka álitlegt vatnsfall þar í hjeraðinu í fyrra, og þeir leituðu til stjórnarinnar um það. hvort mögulegt væri, að þeir fengju fje úr ríkissjóði að nokkrum hluta til þessara rannsókna. Stjórnin varð að segja, að það eina, sem hún gæti gert, væri að leggja til við þingið, að það veitti fje til þessara rannsókna. Jeg hygg því, að gott væri, ef stjórnin fengi dálitla fjárhæð í því skyni að hlaupa undir bagga með sveitarfjelögum, er þau þurfa að láta framkvæma meiri háttar rannsóknir í þessu skyni. Jeg tel það rjett, að stjórninni sje trúað fyrir nokkru fje til þess að hlaupa undir bagga með sveitarfjelögum í þessu skyni, sjerstaklega vegna þess, að það er einatt ástæða til þess að rannsaka þessi atriði, þótt ekki sje víst um framkvæmdir í bráð, og þá ætti aðstoð ríkisins sjerstaklega að vera í því fólgin að útvega sveitarfjelögunum hæfan verkfræðing. Hvernig sem á málið er litið, er eigi rjett að láta þessa fjárveitingu falla niður. Jeg held, að fjárveiting þessi sje síst of há, og mjer þætti undarlegt, ef stjórninni yrði eigi trúað fyrir svona litlu fje til uppörfunar smærri raforkufyrirtækja. Jeg vona því, að háttv. deild sýni það, að hún metur tilraunir manna í þessu efni svo mikils, að hún láti fjárveitingu þessa standa.