03.05.1921
Neðri deild: 61. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1430 í B-deild Alþingistíðinda. (1339)

7. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Fjármálaráðherra (M. G.):

Jeg skal vera stuttorður; ætla ekki að gera þjark út af bóka- og listasöfnunum, en held því fram, að ekki sje ástæða til að undanþiggja þau.

En það, sem fyrir mjer vakti, þegar jeg samdi frv., var það, að hafa hjer engar undantekningar. Jeg er hræddur um, að ef hjer væri eitt undantekið, þá mundi fleira þar á eftir fara.

Jeg skal játa það, að það er hægt að finna dæmi, þar sem þessi lög virðast ekki koma sem rjettlátast niður. En fyrir slíkt verður aldrei girt með neinum lögum, því að lögin eru samin fyrir heildina, en ekki fyrir einstök tilfelli. Jeg býst og við því, að slíkur maður, sem um ræðir í dæmi hv. þm. Dala. (B. J.), gæti fengið undanþágu frá skattgjaldinu, ef hann sannar það, að hann ætli að gefa safnið hinu opinbera. En vitaskuld getur ekki komið til mála að undanþiggja eignir skattinum fyrir það eitt, að eigendur þeirra þykjast ætla að gefa þær því opinbera. Þess ber og að gæta, að skatturinn af hinum smærri upphæðum er svo lágur — aðeins 1 kr. af þúsundi — að ekki væri það mikill bókaelskandi, sem ljeti fallast frá bókakaupum af þeirri ástæðu.

Viðvíkjandi skattstiganum get jeg ekki tekið undir með háttv. þm. Dala. (B. J.), að hann hækki of lítið, og þeir, sem miðlungstekjur hafa, verði því harðast úti. Og ekki getur til mála komið að semja sjerstök tekjuskattslög fyrir embættismenn, eins og hann virðist vilja. Þeir eiga að greiða skatt af öllum sínum eignum og tekjum eins og aðrir.

Jeg held, að það sje alls ekki hægt að undanskilja hjer endurgjald fyrir vísindastarfsemi. Það var hugsunin með frv. að leggja skatt á allar tekjur. Og jeg held, að það sje alveg ómögulegt fyrir skattanefndirnar að meta t. d. hvort háttv. þm. (B.J.) fær hæfil. mikið fyrir að þýða Faust eða ekki. Slík mál sem þessi verður að taka praktiskt en ekki teoretiskt. Jeg viðurkenni, að hugsunin sje logiskt rjett hjá háttv. þm. (B. J.), en það er praktiskt óframkvæmanlegt.