07.05.1921
Neðri deild: 64. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1449 í B-deild Alþingistíðinda. (1347)

7. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Jón Þorláksson:

1. brtt. mín á þskj. 472 miðar að því að koma meira samræmi á skattgreiðslur hlutafjelaga og samvinnufjelaga. Það hefir verið mikið talað um það að undanþiggja samvinnufjelögskattgreiðslu af þeim tekjum, sem renna til fjelagsmanna sjálfra og leiðir af viðskiftum þeirra við fjelagið. Inn á þennan hugsanagang gengur stjórnarfrv. um tekjuskatt í 9. gr. sinni, sem undanþiggur skattgjaldi þann gróða samvinnufjelaga, sem úthlutað er í árslok til fjelagsmanna. Ef litið er til hlutafjelaga, þá er eins rjettmætt að tala um tvöfaldan skatt, þar sem fjelagið verður fyrst að greiða skatt af ágóða sínum og síðan hver einstakur hluthafi af því, sem honum er útborgað. Stjórnarfrv. leyfir í 13. gr. að draga 4% af innborguðu hlutafje eða stofnfje frá, áður en skattur er greiddur. Þetta er aðeins málamiðlun, sem nær ekki því rjetta, hvor reglan, sem upp er tekin: Að skoða fjelagið sem sjálfstæðan skattaðila, eða skattleggja sama gróðann aðeins einu sinni. Jeg fyrir mitt leyti hallast helst að því, að skattleggja allan gróðann hjá fjelaginu sjálfu, því að það er drýgra og hagkvæmara fyrir ríkið að taka skattinn í einni heild hjá fjelaginu heldur en smáskömtun hjá hinum einstöku fjelagsmönnum, fyrir utan það, að hann getur fremur borið undan skattgreiðslu með því lagi.

Jeg hefi þó ekki sjeð mjer fært að bera fram brtt. í þá átt, að bæði samvinnufjelög og hlutafjelög greiddu tekjuskatt af öllum gróða sínum, af því að jeg veit af atkvgr. um samvinnufjelögin, að það væri þýðingarlaust að vænta henni fylgis hjer í deildinni. En jeg vil gefa háttv. deildarmönnum tækifæri til þess að sýna hlutafjelögum sanngirni sína, því að jeg vil í lengstu lög verjast þeirri hugsun, að baráttan fyrir skattfrelsi samvinnufjelaganna sje sprottin af sjerdrægni samvinnumanna. Jeg vil í lengstu lög reyna að trúa því, að þessi stefna þeirra byggist á rjettarhugsun, og sje svo, þá treysti jeg því, að þeir samræmis vegna greiði brtt. minni atkvæði.

Í 23. gr. frv. er gert ráð fyrir því, að með konunglegri tilskipun verði breytt. núgildandi ákvæðum um niðurjöfnun og kosningu niðurjöfnunarnefndar í Reykjavík; auk þess verði á sama hátt sett ákvæði um tekju- og eignarskatt í Reykjavík. Bæjarstjórn Reykjavíkur hefir á sínum tíma farið fram á það við hið háa Alþingi, að gagngerð breyting væri gerð á skattamálum Reykjavíkur, þannig, að í stað niðurjöfnunar kæmi tekjuskattur, og í stað niðurjöfnunarnefndar kæmi skatta nefnd. Tel jeg það illa farið, að Alþingi varð ekki við þeim tilmælum þá. Nú eru tímarnir breyttir svo, að borgarstjórnin treystir sjer ekki til að fara fram á að fá slíka breytingu lögleidda að sinni.

En á meðan niðurjöfnun eftir efnum og ástæðum er gildandi í Reykjavík, þá munu Reykvíkingar ekki láta taka af sjer rjettinn til að kjósa niðurjöfnunarnefndina. Það er heldur ekki til neins að hugsa sjer, að sú nefnd taki að sjer skattanefndarstörfin, vegna þess, að það á að framkvæma hvortveggja störfin á sama tíma, en störf niðurjöfnunarnefndar eru ærin fyrir. Þegar svo er, þá skil jeg ekki, hvað það á að þýða að vera að blanda skipun niðurjöfnunarnefndar inn í þessi lög. Brtt. mín miðar að því að fella niður 23. gr., svo að farið verði eins með skipun skattanefndar í Reykjavík og öðrum hjeruðum. 3. brtt. og 4. a. og b. ganga allar út á þetta. Brtt. 4.c. tek jeg aftur, vegna þess, að brtt. sama efnis er komin fram á þskj. 503.