07.05.1921
Neðri deild: 64. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1480 í B-deild Alþingistíðinda. (1361)

7. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Þórarinn Jónsson:

Það er auðvitað, að það er auðveldur vegur til að ná í tekjur, þetta sem farið er fram á í brtt. á þskj. 497. En hann er ekki að sama skapi rjettlátur. Eftir till. á að taka hlutfallslega jafnt af þeim, sem eiga litlar upphæðir, og þeim, sem eiga háar inni í bönkum eða sparisjóðum. Þetta held jeg geti orðið til þess, að þeir, sem eiga litlar upphæðir í inneignum, mundu taka þær út. Önnur ástæða er mikils virði, hún gerir auðveldara að ná inn skattinum og mönnum gert erfiðara að leyna eignum sínum.

Jeg geri ráð fyrir, að stjórnir þessara stofnana (banka og sparisjóða) láti sveitarstjórnum í tje allar upplýsingar um inneignir manna. Þetta gæti orðið mikill ljettir fyrir sveitarstjórnir, því að það vill oft ganga illa að fá menn til að gefa upp inneignir sínar.

Háttv. 2. þm. Skagf. (J. S.) sagði, viðvíkjandi tekju- og eignarskatti, að hann væri rjettlátari en útflutningsgjald. Þetta get jeg fallist á. Það kemur jafnast og rjettast niður að láta menn greiða opinber gjöld eftir eignum sínum og tekjum, og engu öðru. Hin aðferðin, að leggja á útflutningsgjald og tolla, er óheppilegri, því að leggja á framleiðslu eða veltu hlýtur altaf að verða að meira eða minna leyti ósanngjarnt. En þetta gamla fyrirkomulag getur ekki verið til frambúðar, og dagar þess fara að verða taldir. En hins vegar ber á það að líta, að tekjuþörf ríkisins er mikil nú, og er varhugavert að tefla svo út í tvísýnuna að afnema gömlu tekjustofnana og treysta á þá nýju. Enginn veit, hvað inn kann að koma af tekju- og eignarskatti. Það er ekki víst nema tilkostnaður verði nærri eins mikill og tekjurnar. Það er því athugavert að treysta um of á þennan nýja og óreynda tekjustofn, þó að hann sje að mörgu leyti rjettlátari og heppilegri en það, sem fyrir er.

Það er satt, að útflutningsgjald kemur aðallega niður á framleiðendum, en þeir standa einnig best að vígi með að greiða skatta. Þó að tap verði á framleiðslu, þá er framleiðslustofninn eftir, og ef hann er ekki fær um að bera gjöld, þá eru aðrir það ekki fremur. Auk þess má benda á, að framleiðendur eiga yfirleitt hægra með að framfleyta sjer og sínum heldur en aðrir.

En þetta er ekkert aðalatriði. Aðalatriðið er það, að ríkissjóður þarf tekjur og útflutningsgjald er ekki ranglátara en margir aðrir skattar, en gefur vissar tekjur. Útflutningsgjald er neyðarúrræði, til þess að vinna bug á tekjuhalla.

Jeg þarf ekki að svara háttv. 1. þm. G.-K. (E. Þ.) sjerstaklega, því að hann bar fram sömu ástæður og háttv. 2. þm. Skagf. (J. S.).

Af þessum ástæðum get jeg ekki greitt atkv. með brtt. á þskj. 497, þó að hún sje að stefnu til aðgengileg. Jeg skal játa, að þetta er vandræðamál, eins og skattamálin yfirleitt, en ríkið vantar tekjur, og þær þarf að útvega.