07.05.1921
Neðri deild: 64. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1485 í B-deild Alþingistíðinda. (1365)

7. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Einar Þorgilsson:

Aðeins örstutt athugasemd. Háttv. 2. þm. Húnv. (Þór. J.) kvað okkar till. mundu leiða til þess, að menn tækju eigur sínar og flyttu þær úr bankanum, þangað sem þær væru skattfrjálsar. Þannig skildi jeg að minsta kosti orð hans, því að vart munu menn farga eigum sínum alveg eða geyma þær vaxtalausar. Háttv. þm. (Þór. J.) sagði, að ekki mætti hjálpa mönnum til þess að fela eignirnar. Jeg fæ ekki sjeð, að mönnum sje gefið nokkuð frekar tækifæri til þess með brtt. en áður, eða vill þm. (Þór. J.) halda því fram, að innieignir manna hafi til þessa verið gefnar svo upp, að sveitarstjórn hafi með öllu verið ljóst, hvers virði þær væru eða hversu háar fjárupphæðir væri um að ræða? Þetta held jeg, að ekki hafi átt sjer stað, og það fyrirkomulag, er till. okkar fer fram á, mundi einnig geta komið sveitarstjórnum að liði við niðurjöfnun aukaútsvara.

Hins vegar er búið að taka það svo skýrt fram, að fyrir ríkissjóð er þetta langbesta leiðin. — Sami háttv. þm. (Þór. J.) mintist á brtt. háttv. 2. þm. Skagf. (J. S.) og í sambandi við hana á frv. til laga um útflutningsgjald. Háttv. þm. (Þór. J.) segir, að það sjeu fæstir framleiðendur, sem greiði útflutningsgjald. Þessi ummæli eru mjer með öllu óskiljanleg. Þeir, sem flytja út, munu taka til greina þetta gjald og láta það koma niður á framleiðendum. Jeg skal viðurkenna, að það er mjög hægt að ná þessu gjaldi, vegna þess hve fáir flytja út, en þeir láta það bitna á framleiðendum, svo að það er með öllu rangt, að framleiðendur losni alveg við þetta gjald.