06.05.1921
Neðri deild: 63. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1505 í B-deild Alþingistíðinda. (1398)

11. mál, stimpilgjald

Frsm. (Jakob Möller):

Þetta frv., sem hjer liggur fyrir, er eitt af stórvirkjum hæstv. stjórnar, svo mjer ætti að vera ánægja að tala fyrir því hjer! Þar sem þetta frv. mundi gefa þó nokkrar tekjur fram yfir gömlu lögin, sá nefndin sjer ekki fært að leggjast á móti því, hvaða skoðanir, sem hún annars kynni að hafa á stimpilgjaldi, þar sem þörfin er svo mikil á tekjuauka handa ríkinu. Mun þó vera gert ráð fyrir gjaldinu nokkru hærra í þessu frv. heldur en tíðkast erlendis víða, og gæti það verið óheppilegt í ýmsum greinum, t. d. sjerstaklega að því er snertir vátryggingar, og þá einkum sjóvátryggingar, því að eins og nú hagar til, mun ekki um aðrar innlendar vátryggingar að ræða, sem óttast þurfi erlenda samkepni. En nefndinni er kunnugt um, að stimpilgjald af vátryggingarskjölum er hjer ákveðið töluvert hærra en gerist erlendis. Getur og verið, að nefndin komi með brtt. til 3. umr. þessu viðvíkjandi. En þær brtt., sem nefndin hefir þegar komið fram með, eru allar gerðar í samráði við hæstv. stjórn, nema ef vera skyldi 1. brtt. við 15. gr., um endurgreiðslurnar, enda er það ekki stórt atriði, og mundi ekki koma til endurgreiðslu, nema krafist væri, en þá ættu allir að eiga jafnan rjett á henni, hvort sem mikið er eða lítið, sem afgreitt hefir verið.

2. brtt., a. liðurinn, er um það að tvöfalda stimpilgjaldið þegar fasteign er afsöluð hlutafjelögum. Þetta byggist á því, að þegar fasteignir verða hlutafjelagseign, má gera ráð fyrir því, að þeim sje svo ráðstafað, að eigendaskifti verði ekki í bráð, og því rjettmætt að greitt sje hærra gjald er svo ber undir. Þessi breyting er fram borin eftir bendingu reynds manns, og telur hann, að þetta tíðkist meðal annara þjóða, og þótti nefndinni rjett að taka ákvæði þetta upp í frv. B-liðurinn er aðeins breyting til frekari skýringar á ákvæði greinarinnar.

3. brtt. er við 18. gr. frv., og er trygging fyrir því, að verðhæð sú, sem stimpilgjald er greitt af, verði ekki sett óhæfilega lágt, aðeins til þess að komast hjá að greiða þetta eða önnur slík gjöld. Það getur að vísu komið fyrir, að eign sje seld lægra verði en hún er metin til skatts, en í það þykir ekki horfandi, þó að gjaldið verði þá nokkru hærra en til söluverðsins svarar, þegar um slíkar tækifærissölur er að ræða. Nefndinni þykir rjett að miða við það verð, sem skattur er talinn af, og er þetta mikilsvert tryggingarákvæði gagnvart stimpilgjaldinu.

4., 5. og 6. brtt. fara fram á, að feldar sjeu úr frv. 39., 41. og 42. gr. og eru um stimpilgjald af kaupum og sölu á lausafje, verksamningum og fleiru. Nefndinni lýst svo á, að erfitt verði að framkvæma þetta t. d. að framfylgja stimpilgjaldsskyldunni gagnvart kaupum og sölu á lausafje. Virðist nokkur vafi geta leikið á því, hve langt á að ganga í því efni, en allumstangsmikið yrði það t. d., ef þetta ætti að ná til allra skriflegra vörupantana.

7. brtt. og hin síðasta, er nefndin hefir gert, er við 44. gr. og heimilar ráðherra að gefa snauðum mönnum eftir gjald það, er frv. ákveður, að sje af einkaleyfisbrjefum og öðrum brjefum. Þó má gera ráð fyrir, að þetta nemi aldrei miklu eða hafi mikla þýðingu hjer á landi, en breytingin er gerð samkvæmt fordæmi annara þjóða, og leggur nefndin ekki mikla áherslu á það.

Jeg hefi svo ekki meira um málið að segja. Nefndin lítur svo á, að úr því að stimpilgjald er í lög tekið, eigi ekki að hörfa frá því eða draga úr því, heldur útvíkka það sem föng eru á, og það er gert með þessu frv.