06.05.1921
Neðri deild: 63. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1507 í B-deild Alþingistíðinda. (1399)

11. mál, stimpilgjald

Fjármálaráðherra (M. G.):

Mjer þykir stórum betur, að háttv. fjhn. hefir afgreitt frv. þetta. Jeg hjelt um tíma, að hún myndi ekki ætla að skila málinu frá sjer, en úr því háttv. frsm. (Jak. M.) telur þetta frv. stórvirki, þá getur mjer skilist dráttur nefndarinnar á afgreiðslu þess.

Annars skal jeg leiðrjetta þann misskilning hv. frsm. (Jak. M.), sem kom fram í ræðu hans í dag í sambandi við annað mál, er hjer var til umræðu, að milliþinganefnd hefði unnið að skattafrv. þeim, sem stjórnin lagði fyrir þingið. Hjer er ekki um neina milliþinganefnd að ræða. Stjórnin kvaddi tvo menn sjer til aðstoðar, en annar veiktist og hinn hætti skömmu síðar. Kostnaður þessi er hverfandi lítill í samanburði við það, sem milliþinganefndir kosta.

Að öðru leyti skal jeg taka það fram, að endurskoðun þessara skattamála eru að mestu leyti mitt starf persónulega, án þess þó að jeg ætli að fara að tala um það hjer, hvernig það sje af hendi leyst.

Um brtt. nefndarinnar er það að segja, að þær eru flestar gerðar með samþykki mínu. Þó er 1. brtt. ástæðulítil, því að það borgar sig ekki að eltast við þessa 10 aura. Vitanlega spillir hún ekki, enda mun jeg ekki gera hana að neinu ágreiningsefni.

Stafliður b. í 2. brtt. er með öllu óþarfur, því að það er tekið skýrt fram í frv., að ekkert skjal eigi að tvístimpla.

Þá er kvartað um, að sjóvátryggingargjaldið í 38. grein sje hátt, 10 aurar af hverju þúsundi, og skal jeg játa, að það er dálítið hærra en tíðkast annarsstaðar, og mun jeg ekki setja mig á móti því, að það verði lækkað. Hinsvegar vona jeg, að nefndin hafi tekið eftir ákvæði í gr., að stjórninni er heimilt að gefa eftir og veita undanþágu á stimpilgjaldi, ef sjerstök ástæða þykir til. Og ef eitthvert íslenskt fjelag ætlar að verða undir í samkepninni við erlend fjelög, þá mun verða gripið til þessarar heimildar og henni beitt, til þess að styrkja hinn innlenda fjelagsskap.

Um síðustu brtt., við stafliðina n. og o. í 44. gr. frv., hefi jeg lítið að segja. Jeg get gengið inn á, að snauðum mönnum sje gefið eftir, ef þess þykir þurfa. En þó vildi jeg benda á, að það getur valdið mikilli fyrirhöfn, t. d. fyrir mann austur í Múlaþingi, sem þarf að fá leyfisbrjef til hjónabands, að sækja um undanþágu frá stimpilgjaldi til ráðherrans, en auðvitað á hann um það við sjálfan sig, ef hann vill hafa svo mikið fyrir því. En af því að valdsmenn hafa heimild til að láta af hendi leyfisbrjef fyrir lægra verð, eða ókeypis, þegar um snauða menn er að ræða, þá væri betra að þetta næði líka til stimpilgjaldsins.

Að öðru leyti sje jeg ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta að sinni.