07.04.1921
Efri deild: 37. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1578 í B-deild Alþingistíðinda. (1474)

1. mál, hlutafélög

Sigurður Hjörleifsson Kvaran:

Jeg er enginn kunnáttumaður á þessum sviðum, og skal því ekki hætta mjer út í langar umræður. Jeg vil þá fyrst og fremst geta þess, að mjer finst eigi hafa verið færð nægileg rök fyrir því, að rjett sje að breyta því ákvæði 4. gr. frv., að stofnendur skuli eigi vera færri en þrír. — Get jeg því eigi fallist á þá tillögu nefndarinnar, að þeir skuli vera minst 5. Því að af þeirri breytingu leiðir af sjálfu sjer, að slíta verður hlutafjelagi, ef hluthafar verða færri en 5.

Jeg hefi engin fullgild rök heyrt fyrir því, að þetta sje rjett, því í okkar fámenna þjóðfjelagi væri miklu fremur ástæða til að velja lægri töluna.

Þá get jeg og eigi fallist á, að rjett sje að breyta ákvæðum 4. gr. um hluthafaframlögin. Í frv. stjórnarinnar er ákveðið, að stofnendur skuli hver um sig leggja fram 500 kr. En eftir brtt. nefndarinnar eiga stofnendur að leggja fram 2000 kr. alls. Þetta er töluvert annað, og mjer sýnist full ástæða til að ákveða, hvað hlutabrjef megi vera lægst. Og get jeg því eigi skilið, hvers vegna nefndin leggur til, að hlutafjelag megi stofna, ef stofnendur leggi aðeins fram alls 2000 kr., því fjelög, sem stofnuð eru með mjög lágum hlutum — t. d. 10 kr. hlutum — hafa stundum, eða jafnvel oft, reynst fjárglæfrafyrirtæki.

Af þessum ástæðum hefi jeg helst tilhneigingu til að greiða atkvæði með greininni eins og hún er í frv.