19.02.1921
Neðri deild: 4. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 97 í B-deild Alþingistíðinda. (149)

16. mál, sala á hrossum

Atvinnumálaráðherra (P.J.):

Hjer eru á ferðinni bráðabirgðalög, sem ríkisstjórnin gaf út 31. maí 1920, og virðist því nokkur ástæða til að rekja í fáum dráttum sögu þessa máls.

Árin 1918 og 1919 var stjórnareinkasala á hrossum til útlanda. Reyndist hún svo, að hrossaeigendur voru fremur vel ánægðir með þá tilhögun. Þessi einkasala 1918 komst á fyrir valdboð bandamanna, eins og sjá má af ensku samningunum, en 1919 var það fyrir málaleitun dönsku stjórnarinnar. 1920 lá ekkert slíkt fyrir, enda hugsaði stjórnin sjer ekki að taka að sjer, á sama hátt og áður, útflutning hrossanna, nema að henni bærist eindregnar áskoranir í því efni. En svo leið langt fram á vetur, að engar raddir heyrðust í þá átt, enda munu því hafa valdið hin miklu harðindi og illar horfur um land alt, og bændur því annars hugar, flestir.

Þegar komið var fram undir sumarmál, án þess að nokkur hreyfing kæmi úr nokkurri átt, þorði jeg ekki annað en að gera eitthvað í málinu, áður en það drægist í eindaga, þó að jeg jafnframt sæi, að ekkert verulegt væri hægt að ákvarða, á meðan skepnur manna voru í voða af fóðurskorti. Mjer var það ljóst, að gjaldeyrir þessi (hrossaverðið), mátti ekki lenda í handaskolum eða hverfa undan.

Hugsaði jeg mjer þá, að eina ráðið til bjargar máli þessu væri að koma á samtökum með öllum eigendum útflutningshrossa. Og til þess að gangast fyrir þeim samtökum hafði jeg augastað á samvinnufjelögunum.

Sneri jeg mjer þá til Sláturfjelags Suðurlands og Sambands íslenskra samvinnufjelaga, og reyndi að fá þau til að ráðast í þetta, þó að mjer væri ljóst, að afarerfitt mundi við þetta að eiga, meðan ekki sá fram úr fóðurskorti, en hitt sá jeg líka, að salan þurfti að vera á einni hönd með aðstoð bænda.

Þrátt fyrir það, þó að útlitið væri afar ískyggilegt og engin trygging fyrir því, að hross lifðu af vorharðindin, tóku þó fjelög þessi málið að sjer. Sjerstaklega var það Sambandið, sem sýndi mikla rögg af sjer. Það sendi skrifstofustjóra sinn til útlanda snemma í maí, til þess að þukla fyrir sjer um hrossasölu og skipakost, því auðsætt var, að allur slíkur undirbúningur þurfti að fara fram sem skyndilegast, úr því sem komið var, ef flytja ætti út 3000–4000 hross.

Aftur á móti unnu bæði fjelögin að því innanlands, Sambandið og Sláturfjelagið, og skiftu með sjer verkum, að safna hrossaloforðum.

Þegar til Englands kom, leið ekki á löngu, að sendimaður næði í tilboð í smærri hross, er var mun betra en fengist hafði þar undanfarin ár. Í Danmörku voru aftur á móti ófáanleg jafnhá tilboð og undanfarin 2 ár, en þó svo há í öll hin betri hross, að hagkvæmara var að selja þau þangað heldur en til Englands. En þó sjerstaklega fyrir þá sök, að til Englands eru hryssur lítt seljanlegar, en Danir fáanlegir að kaupa þær jöfnum höndum, eða því nær eingöngu, ef með þyrfti.

Um 20. maí urðu fullgerðir samningar um sölu á 2000–2500 hrossum til Louis Zöllner í Newcastle, og var Samband íslenskra samvinnufjelaga talinn seljandi. Af þessari hrossasölu mátti 1/5 vera hryssur.

Söfnun hrossaloforðanna heima fyrir gekk dræmt, og sást gjörla, að hæpið yrði að geta fullnægt samningunum við L. Z., og þó engu síður hitt, að geta skift hrossunum eins og heppilegast væri á milli Englandsmarkaðarins og hins danska. nema útflutningur hrossanna væri allur á einni hendi. Gera mátti og ráð fyrir, að ef ekkert yrði aðhafst, gæti t. d. tilboð í 3–400 hross, sem lítið eitt væri hærra, valdið því, að allur hrossamarkaðurinn færi út um þúfur að þessu sinni.

Þess vegna sá stjórnin sjer ekki annað fært en að lögbjóða einkaútflutning ríkisstjórnar á hrossum, á sama hátt og undanfarin ár, og skipa útflutningsnefnd, og naut stjórnin þar að ráða margra viturra manna og kunnugra í þessu efni. Þessar ráðstafanir stjórnarinnar eru bráðabirgðalög þau, sem hjer með eru lögð fyrir þingið.

Þegar eftir að lög þessi voru gefin út. tókust samningar um sölu á 1000–2000 hryssum til Danmerkur.

Hrossasalan fór þá þannig, að út var flutt frá Reykjavík á tímabilinu 26. júlí til 6. okt., til Englands 1936 hross og til Danmerkur 1500 hross, en það verður til samans 3436 hross.

Af hrossum þessum voru 1575 hestar, en hryssur 1861 (= 3436).

Af öllum hrossunum voru 1303 tryppi 3 vetra, og er það óvenjulega há tala, en þó skiljanleg, því að á þeim tíma var verðið mun hærra en tíðkast hafði áður.

Útborgunarverð á markaði var, á bestu hestuni 420 krónur, en á lægstu og ljeleguslu hrossum 180 krónur. Að lokum kom svo uppbót á hvert hross. er nam 28 krónum.

Þannig var þá verðið, þegar alt er talið : á besta hesti, 4–8 vetra, kr. 448 og á ljelegasta mertryppi. 3 vetra, 208 kr., og verður ekki annað sagt en betur hafi úrræst heldur en áhorfðist í fyrstu.

Vilji nú Alþingi, að ríkisstjórnin haldi áfram einkasölu á hrossum til útflutnings, er rjett að vísa frv. þessu til nefndar. Hitt verður ekki afturkallað, sem þegar er búið að aðhafast samkvæmt þessum bráðabirgðalögum.

Vil jeg því leyfa mjer að leggja til, að máli þessu verði vísað til landbúnaðarnefndar.