20.05.1921
Neðri deild: 75. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1614 í B-deild Alþingistíðinda. (1529)

1. mál, hlutafélög

Jón Þorláksson:

Mjer skilst þá eftir báðar þessar atkvæðagreiðslur, að málið sje enn til umræðu. Mætti því vel svo fara, að tími sá, sem eftir er af þessum fundi, dygði ekki til þess að ræða frv. Því svo er efni þessa máls mikilsvert, að full ástæða er til, að frv. verði ekki flaustrað af. Þó skal jeg engu um það lofa að útenda fundartímann, en jeg vil með nokkrum orðum minnast á ágreiningsatriði það, er deilum veldur á milli deildanna.

Það er skýrt svo frá, að Ed. hafi fundið þetta afar ófrjálslynda þvingunarákvæði, sem hún setti inn í frv., í sænskum lögum. Jeg hefi nú ekki getað kynt mjer þetta, en mjer hefir sagt fróður utanþingsmaður, að þetta væri þó ekki alment ákvæði um hlutafjelög í Svíþjóð, heldur um sjerstaka tegund þeirra.

Þetta virðist því vera veigalítil ástæða fyrir því að taka þetta upp í íslensk lög.

Mjer sýnist, að þetta lagaákvæði sje í samræmi við þá stefnu, sem hjer hefir talsvert bólað á, að setja í lög allskonar þvingunarákvæði, en hirða síðan ekkert um, hvort þeim ákvæðum er framfylgt eða ekki. Enda hefir þessi stefna einmitt haldist hjer uppi af því, að ekkert hefir verið hirt um að framfylgja slíkum ákvæðum; menn mundu hafa risið á móti þeim, ef þeim hefði verið beitt.

Það ákvæði, sem hjer ræðir um, þýðir það, að löggjafarvaldið vill gera sig að forráðamanni einstakra manna um fjármál þeirra. Þetta á sjer að vísu stað í einstökum tilfellum, að löggjöfin tekur af mönnum umráðarjett yfir eignum þeirra. Það er gert um stundarsakir við þá menn, er komast í fjárþrot. Það er gert við þá menn, sem ekki eru taldir með fullu viti. Ennfremur er það gert við þá menn, sem eru svo hóflausir í ráðleysi, að vandamenn þeirra æskja þess, að fjárráðin verði af þeim tekin.

Það er algert nýmæli í lögum hjer, að fara í ekkert slíkt manngreinarálit, heldur taka umráðarjettinn að nokkrum hluta eigna manna af þeim fyrir þá eina sök, að þeir eigi of mikið eða hafi of mikið undir höndum. Tel jeg þessa stefnu löggjöfinni til lítillar sæmdar, ekki síst þar sem lítið eða ekkert er hugsað um framkvæmd laganna.

Úr því nú að allmikill ágreiningur hefir komið upp milli deildanna út af þessu atriði, þá sýnist rjettast, að þessi lög bíði til næsta þings. Mætti á þeim tíma leita álits þeirra manna, er þessi lög snerta mest, til dæmis Verslunarráðs Íslands og fjelags íslenskra botnvörpuútgerðarmanna.

Jeg held, að hið íslenska löggjafarvald þurfi alls ekki að fyrirverða sig fyrir það, þótt ekki verði þessi lög hespuð af nú á þinginu. Jeg veit, að samskonar lög hafa meðal annara þjóða verið mörg ár á döfinni. Svo stórfelda lagabálka, sem þessi er, láta erlend þing ekki frá sjer fara, fyr en trygt er um það, að við þau megi búa. En jeg held, að ef þessi lög verða nú samþ., þá sjeu þau miklu fremur til tjóns en bóta. Það er og ekkert, sem rekur mjög eftir þessum lögum, og sýnist engum þurfa að vera bagi að því, að þau dragist um eitt ár.

Jeg skal svo ekki ergja háttv. þdm. með umræðum, en vil aðeins lýsa yfir því, að jeg greiði atkvæði á móti því, að þetta frv. verði nú afgreitt.