20.05.1921
Neðri deild: 75. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1620 í B-deild Alþingistíðinda. (1534)

1. mál, hlutafélög

Gunnar Sigurðsson:

Það stendur á sama, hvað háttv. frsm. (E. Þ) eða aðrir segja um það, að lög sjeu hjer vel haldin og að þingið sje vandlátt og gætið í lagasetningu; það er alkunna, að hvorugt á sjer stað. Jeg býst við, að það muni koma bráðlega í ljós, að lög þessi eiga hjer ekki við eftir staðháttum, og þá verður að breyta þeim. (Atvrh.: Um þetta erum við sammála). En það er á allra vitorði, að þessi lög eru samin eftir útlendum lögum, þýdd og endurbætt ef til vill eitthvað af íslenskum lögfræðingi, en þar með er ekki sagt, að þau hafi fengið nógu rækilegan undirbúning. Jeg álít, að það sje ekki nóg að fela lögfræðingum að undirbúa lagafrumvörp, heldur verður að leita álits þeirra, sem eiga að vinna við lögin. Það er ekki hægt að gera þá kröfu, að lögfræðingar þekki slíkt út í æsar. En þetta hefir ekki verið gert; þau hafa ekki verið borin undir þá menn, sem eiga að starfa undir þeim og mest hafa af þeim að segja. Það sem hæstv. atvrh. (P. J.) sagði, að í útlöndum væri völ á færari mönnum til að semja lík lög; bæði er nú, að jeg dreg það í efa, en sjerstaklega neita jeg þó því, að þeir sjeu færari til að semja lög eftir okkar staðháttum. Hvernig gæti sænskur lögfræðingur samið íslensk ábúðarlög? (Atvrh.: Þetta er fjarstæða). Það er alls ekki fjarstæða; það er svo um bæði þessi lög, að þau verða að sníðast eftir íslenskum staðháttum.