20.05.1921
Neðri deild: 75. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1621 í B-deild Alþingistíðinda. (1535)

1. mál, hlutafélög

Jakob Möller:

Það hefir verið mikið notað hjer, hvað undirbúningur þessa máls hafi verið gcður. Hæstv. atvrh. (P. J.) hefir hvað eftir annað vitnað í það, að lög þessi væru svo vel undirbúin og að svo vel væri til þeirra vandað af stjórnarinnar hálfu, sem frekast yrði ákosið. Því til sönnunar færir hann það, sem öllum er vitanlegt, að lög þessi eru samantekin af tveim viðurkendum lögfræðingum. Þetta er nú vitanlega þýðingarmikið atriði, og má gera ráð fyrir, að lögin sjeu að því leyti vel úr garði gerð, að ekki sjeu á þeim verulegir smíðisgallar. Það má gera ráð fyrir, að frv. þetta taki að þessu leyti talsvert fram frumvörpum, sem samin eru af ólögfróðum mönnum. En þó liggur það í hlutarins eðli, að það er ekki einhlítt, þó að slík lög sem þessi sjeu þannig úr garði gerð, að engir formgallar sjeu á þeim. En sá galli er á undirbúningi málsins, eins og oft hefir verið bent á undir umræðunum, að frv. hefir ekki verið borið undir álit þeirra manna, sem eiga að búa við lögin í framtíðinni. Þetta verður að teljast stórgalli á undirbúningi þessarar lagasetningar, sem hlýtur að snerta mjög atvinnu-og viðskiftalíf alt í landinu. Það eru að vísu höfð til fyrirmyndar samskonar lög ýmsra annara landa, en það hefir verið rjettilega bent á það, að það getur verið vafasamt, hversu vel þau eiga hjer við. Öllum er það vitanlegt, að aðstaðan er hjer ólík því, sem hún er í öðrum löndum, og þess vegna viðbúið, að lagasetningar þeirra eigi ekki við hjer. Það hafa nú verið sýnd ýms dæmi um, að þetta frv. hefir ýmsa galla, sem stafa af því, að ekki hefir verið tekið hæfilegt tillit til þeirra sjerstöku staðhátta, sem hjer eru. — Að öðru leyti tel jeg mig alls ekki færan til að dæma um það, hvernig undirbúningur málsins hefir verið af hendi leystur. En vegna þess hve mikið hæstv. atvrh. (P. J.) hefir lagt upp úr því, að frv. væri samið af hálærðum lögfræðingum, þá skal jeg geta þess, að jeg hefi heyrt hálærðan lögfræðing fara um það þeim orðum, að svo virtist, sem alt hið versta úr hlutafjelagalögum annara þjóða hefði verið tínt upp í það. (Fjrh.: Hver er þessi lögfræðingur?). Jeg kæri mig ekki að nefna nafn hans, en þetta er nú dómur þessa lærða lögfræðings.

En svo er þá að athuga meðferð málsins hjer á þingi. Málið er fyrst athugað af nefnd í háttv. Ed., sem fyrst fjekk frv. til meðferðar. Efast jeg ekki um, að nefndin hafi lagt fulla alúð við málið, og talsverðar breytingar gerði hún þó á frv., og þar á meðal setti hún inn í það ákvæði það, sem nú er aðallega deilt um. En þetta ákvæði skilst mjer, að nefndin hafi „hent á lofti“, af því, að henni hafði verið bent á, að það væri til í hlutafjelagalögum í Svíþjóð, en það er ekki upplýst, hvort þar er um alment ákvæði að ræða, eða að þetta gildir aðeins um einstök fjelög sjerstakra tegunda. Jeg geri ráð fyrir því, að slíkt sje til í hlutafjelagalögum í Svíþjóð, eða hafi verið til. En hitt verð jeg mjög að efast um, að það nái jafnt til allra fjelaga. Fyrir mitt leyti gæti jeg fallist á að hafa slíkt ákvæði, að einstaka hluthafar geti ekki farið með ótakmarkaðan atkvæðafjölda í sumum hlutafjelögum, og þá sjerstaklega í þeim fjelögum, þar sem starfið snertir mjög hag almennings, eins og t. d. Eimskipafjelag Íslands, eða í þeim fjelögum, sem stofnuð eru í því skyni að framleiða eitthvað til almenningsnotkunar, eins og t. d. rafmagn til almenningsnota. Þá gæti slíkt ákvæði orðið og œtti fyrst og fremst að verða trygging, ekki fjelagsmönnum, heldur viðskiftamönnum fjelaganna gegn því, að fjelagið notaði aðstöðu sína til þess að skara of mjög eld að sinni köku á kostnað almennings.

Jeg geri ráð fyrir, að þetta hafi líka vakað fyrir þeim háttv. þm., sem fastast hafa haldið í þetta ákvæði. Það getur verið gott, þar sem það á við, að leggja einhver bönd á gróðafíknina, t. d. þegar hún kemur í bág við hag almennings. En því fer svo fjarri, að það sje svo algild regla, að gróðafíkn slíkra fjelaga fari í bág við hag almennings, að þar geti ekki verið undantekningar. Þau hlutafjelög, sem hjer eru til, eru flest svo vaxin, að hag almennings er svo best borgið, að þau græði sem mest. Þess vegna er ekki rjett að setja slíkt alment ákvæði í lög, sem stemma stigu fyrir því.

Nú geng jeg út frá því sem gefnu, að þetta ákvæði sje sett í lögin fyrir helberan misskilning nefndarinnar í Ed., og svo þegar nefndin heldur fast við þetta, þá verð jeg að telja, að það stafi eingöngu af þráa, því að við nánari athugun mun hver maður sjá, að þetta ákvæði í frv. verður einber hjegómi. Jeg gat um það við 2. umr., að nokkur vafi gæti á því leikið, hvernig skilja bæri orðin: „enginn má eiga eða fara með meira en 1/5 samanlagðra atkvæða í fjelaginu“. Ef þau ætti að skilja þannig, að enginn einstakur maður gæti átt meira en 1/5 hlutafjármagns, þá hefði mátt gera ráð fyrir því, að þetta ákvæði gæti náð tilgangi sínum. Að vísu hefði engum verið gert ófært að fara kringum lögin og gerast eigandi að meiru, þá var það þó rjettlaus eign. En vitanlega er eins fyrir því átt á hættu, að menn gætu sölsað undir sig hluti, og ljetu svo aðra fara með atkvæði fyrir sig. En nú er það upplýst, að þetta er ekki meiningin, heldur er aðeins átt við atkvæðamagnið, að enginn megi fara með meira en 1/5 atkvæðamagns fjelags, hvað mikið sem hann á af hlutafjenu. Af því leiðir, að hver og einn getur eignast eins mikið og hann getur yfir komist, og yfirfært það svo „pro forma“ á aðra til að fara með atkvæðið fyrir sig á fundum. Þannig verður þetta ákvæði gersamlega þýðingarlaust.

Jeg tek undir það með háttv. 1. þm. Rang. (Gunn. S.), að það er sannarlega nóg af ákvæðum í lögum hjer, sem ekki eru framkvæmd, og stjórnarvöldunum dettur ekki í hug að láta hafa nokkurt eftirlit með, þó að hjer sje ekki verið að bæta við einu slíku ákvæði.

Svo er þá eftir að minnast á meðferð málsins í þessari deild. Það eina, sem komið hefir frá allshn. viðvíkjandi málinu, er að jeg hygg tveggja línu nefndarálit, auk nokkurra athugasemda um brtt. hv. þm. V.-Ísf. (Ó. P.). Vildi nefndin helst láta fella þær allar. Svo fór og um þá tillöguna, að fella burt ákvæðið um takmörkun atkvæðarjettarins. Hún var feld hjer við 2. umr. málsins. Að það var gert að órannsökuðu máli, má sjá af því, að samskonar till. var samþykt við 3. umr. með talsverðum meiri hl. atkvæða. Af því varð ljóst, að talsverður meiri hluti deildarinnar var þá búinn að gera sjer grein fyrir því, að ákvæði þetta mundi vera til skemda á frv. Svo fer frv. aftur til Ed., en af þráa setur hún þetta ákvæði aftur inn, og ætlar síðan að kúga þessa deild til að sætta sig við það, og háttv. allshn. veitir til þess aðstoð sína, á þann hátt að fella afbrigði frá þingsköpum, sem þurfti til að hægt væri að koma brtt. fram.

Mig furðar satt að segja á því, hve mikið kapp allshn. hefir lagt á þetta, því að það virðist eins og þetta kapp hennar komi misjafnlega niður. Því að eins og kunnugt er, þá eru enn hjá henni ýms mál óhreyfð frá þingbyrjun, eins og t. d. bannlagafrv.; sem hún hefir haft til meðferðar og ekki er farið að bóla á. Má því ganga að því vísu, að það sjái ekki dagsljósið framar.

Það er í raun og veru ekki alveg fráleitt að minnast á bannlögin einmitt í sambandi við þetta mál. Hjer er verið að deila um ákvæði, sem fyrirfram er vitað, að aldrei verður gerð gangskör að að framkvæma, eða farið eftir, og það minnir ósjálfrátt á bannlögin og meðferðina á þeim. Þó er þess að geta, að í bannlagafrv. því, sem nefndin hefir nú „lagst á“, er einmitt reynt að gera þau lög þannig úr garði, að þau geti komið að gagni. Má vera, að það sje einmitt það, sem háttv. nefnd er þyrnir í augum, og að henni finnist það meira um vert að hleypa af stokkunum nýjum lagaákvæðum, sem lítt verður hirt um að framfylgja, og ef til vill kynni að fara um eins og bannlögin, þannig að stjórnin ljeti menn sæta áminningum fyrir að hreyfa kærum út af brotum gegn þeim.

Þá er og annað mál, sem háttv. allshn. hefir haft til meðferðar á þessu þingi, sem ekki er úr vegi að drepa á í þessu sambandi. Háttv. deild er það vafalaust í fersku minni, að hún skilaði af sjer einu af þýðingarmestu málunum, sem fyrir þetta þing hafa verið lögð, með þeirri tillögu, að það væri lagt undir dóm og álit sýslunefndanna í landinu. Þetta var frv. um berklaveikisvarnir, sem nú er orðið að lögum. Ef nú háttv. nefnd hefir álitið, að það frv., sem vissulega var ekki lakar undirbúið af sjerfræðingum en hlutafjelagafrv., gæti haft gott af því að fá frekari undirbúning hjá sýslunefndum, þá virðist manni, að ekki ætti síður að geta komið til mála að fresta afgreiðslu þessa máls, og leggja það fyrst undir dóm og athugun þeirra manna, sem við lögin eiga að búa og mesta „praktiska“ þekkingu hafa á því, hvað við á hjer á landi í þessum efnum. Það er augljóst, að þetta frv. er langt frá því að vera nægilega athugað, og því slæ jeg föstu, að af nefndarinnar hálfu er það alveg óathugað. Hv. deildarmenn hafa greitt atkvæði um einstök atriði frv. sitt á hvað við umræðurnar. Það sýnir, að þeim hefir ekki unnist tími til að athuga málið nógu vandlega, og virðist því alveg frágangssök að afgreiða það á þessu þingi.

Geri jeg það því að tillögu minni, að frv. verði vísað til stjórnarinnar, til rækilegrar athugunar og undirbúnings undir næsta þing.