01.04.1921
Efri deild: 32. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1644 í B-deild Alþingistíðinda. (1588)

76. mál, bæjarstjórn á Akureyri

Sigurður Eggerz:

Jeg hefði nú næstum getað sparað mjer að tala eftir ræðu háttv. frsm. (G. Ó.). Við í fjhn. erum alveg sammála háttv. þm. Seyðf. (Jóh. Jóh.) um þörfina á því að fá samræma löggjöf um þetta efni. En hagur þessa bæjarfjelags, sem hjer um ræðir, er örðugur eins og margra fleiri um þessar mundir, og því teljum við ekki rjett að spyrna á móti þessu frv., sem þó mætti verða til nokkurra hagsbóta. Þetta er líka aðeins hækkun á gjaldi, sem til er fyrir. Og jeg sje ekki, að þetta þurfi neitt að vera til hindrunar, þá er tekið verður að samræma löggjöfina. Vona jeg því, að háttv. deild samþykki frv. Annars skal jeg geta þess, að jeg er því samþykkur, að þál.till. komi fram, eins og háttv. frsm. (G. Ó.) gat um.