06.04.1921
Neðri deild: 36. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1660 í B-deild Alþingistíðinda. (1639)

81. mál, sala á Upsum

Jakob Möller:

Við allar umr. þessa máls hjer í deildinni ljet jeg það afskiftalaust, þó að jeg hins vegar greiddi aldrei atkvæði á móti því. Jeg tel varhugavert að selja jarðir landssjóðs hreppum eða kauptúnum. Jeg sje ekki, að það skifti svo miklu máli fyrir hreppana að eignast slíkar jarðir. Mjer finst, að viðkomandi hreppsfjelag geti samið við landsdrottin um haganlegt leigufyrirkomulag. Og þar sem hjer er um landssjóð að ræða eða stjórnina, þá ætti að vera auðvelt að komast að góðum kjörum. Jeg myndi nú hafa látið þetta frv. hlutlaust, hefði hv. flm. (St. St.) látið hjer staðar numið. En þar sem nú er á ferðinni frá honum annað frv., um að heimila sölu á Hvanneyri í Siglufirði, þá get jeg ekki lengur setið hjá, og verð nú að greiða atkv. á móti frv., þó að jeg telji það í raun og veru ekki miklu máli skifta, út af fyrir sig, þó að Upsir væru seldar. En jeg verð að taka í sama streng og háttv. samþm. minn, 2. þm. Reykv. (J. B.). um, að hjer sje gengið inn á hættulega braut.