18.03.1921
Neðri deild: 26. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1673 í B-deild Alþingistíðinda. (1668)

65. mál, biskupskosning

Jakob Möller:

Jeg ætla mjer eigi að spilla fyrir frv., en vil aðeins gera grein fyrir atkvæði mína og hvers vegna jeg mun greiða atkvæði á móti því. Jeg álít, að frv. miði í afturhaldsáttina, og það er misskilningur hjá háttv. flm. (S. St.), að þessi aðferð við biskupskosninguna hafi verið ríkjandi í gömlum og góðum sið; hún var það aðeins í kaþólskum sið, þegar menn kirkjunnar hjeldu því fram, að kirkjan ætti að vera ríki í ríkinu. En seinna, eftir siðbótina, kom fram sú stefna, að kirkjan ætti eigi að vera öðrum lögum háð en aðrar stofnanir, og lúta, jafnt sem aðrar, veraldlegu valdi.

Jeg tel það einnig óviðeigandi, að biskup sje kosinn af þeim, sem hann á að hafa eftirlit með; gæti það of mjög stuðlað til þess, að hann reyndi fyrirfram að gera sínar hosur grænar í augum undirmanna sinna og gerðist þeim of háður. Veit að vísu, að kosning prófasts er á þennan veg háttað, en það er ósannað mál, hvort þetta er nokkuð heppilegra.

Tel jeg meiri tryggingu þess, að biskup sje í samræmi við aðaltrúmálastefnurnar, að hann sje skipaður af landsstjórninni. Líkur fyrir því, að meiri hluti presta verði oft á eftir tímanum í þeim efnum, og biskupskosning yrði því til þess að styðja afturhaldið.