18.03.1921
Neðri deild: 26. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1678 í B-deild Alþingistíðinda. (1673)

65. mál, biskupskosning

Magnús Jónsson:

Við 1. umr. benti jeg nefndinni á ýms einstök atriði viðvíkjandi þessu máli. En jeg sje, að nefndin hefir ekki gert neinar breytingar á frv., og úr því að hún hefir ekki sjeð sjer fært að taka upp till. synodusar, vegna þess kostnaðarauka, sem hún heldur, að þeim yrði samfara, þá skal jeg ekki vera að vefja fyrir málinu með því að halda þeim fram, en felst á frv. eins og það er.

Þau andmæli komu hjer fram, að kirkjan yrði með þessu ríki í ríkinu. Eina ástæðan, sem rjettlætir þessi andmæli, er sú, að kosning biskupsins yrði kraftmeiri, ef prestar kysu hann einir, og landsstjórnin hefði bundnari hendur.

Viðvíkjandi því missmíði, sem gæti orðið við kosninguna, þá er hægt að ráða bót á því í þeim nánari reglum, sem stjórnin á að setja.

Jeg vil minnast örlítið á þær ástæður, sem hafa verið færðar móti frv. Jeg sagði ekki við 1. umr., að jeg áliti mikil missmíði á biskupsveitingunni eins og hún nú er. Með blöðum og bættum samgöngum er komið miklu sterkara eftirlit með embættaveitingu ríkisvaldsins, svo ekki er mikil hætta á því, að stjórnin taki menn í biskupsembættið, sem sterk andstaða er gegn.

Háttv. 1. þm, Reykv. (Jak M.) mintist á, að biskupinn yrði of háður prestunum, ef hann væri kosinn af þeim. Jeg sje ekki, hvernig hann á að verða þeim háður. Þó einhver kunni að sækjast eftir kosningu, sem jeg raunar ekki býst við, þá yrði hann þó fullskipaður í embættið og þyrfti ekki að vera neinum bundinn eftir kosninguna. Sá einn verður háður kjósendum, sem þarf að hafa nýja kosningu yfir höfði sjer. Á hinn bóginn er biskupinn ekki fyrst og fremst settur til höfuðs prestunum; miklu fremur á hann að vera í góðri samvinnu við prestana. Að því leyti miðar biskupskosningin einmitt í rjetta átt. Um landlæknisembættið er öðru máli að gegna en biskupsembættið. Prestar eru kosnir af söfnuðum sínum og prófastar af prestum. Biskupskosning er því bara áframhald á sömu braut. En læknar hafa aldrei farið fram á að kjósa landlæknirinn. ( Jak. M.: Þeir eru skynsamari menn heldur en prestarnir). Það getur vel verið, en læknarnir hafa ekki farið fram á það, og sú ástæða liggur því ekki fyrir. Háttv. 1. þm. Reykv. (Jak. M.) hjelt, að hinir íhaldssamari prestar mundu hafa ráðin við biskupskjörið. Kollega minn, háttv. þm. N.-Ísf. (S. St.) mun kalla mig fullfrjálslyndan. En þó er jeg óhræddur við þetta atriði, því að jeg hefi nú mínar skoðanir á því, hvað sje að vera frjálslyndur. Jeg skoða ekki frjálslyndi eftir því, hvað skeður í trúmálum eða hvaða stefnum menn fylgja þar. Frjálslyndi sýnir sig í því, hvað menn kunna að umbera skoðanir annara manna.

Íhaldssamari prestarnir mega vel ráða öllu meiru við biskupskosningu, því að hinar nýrri stefnur hafa ekki nema gott af því að sigla í upphafi nokkurn andbyr, og sýna með því, hve mikill kraftur býr í þeim. Jeg álít það ekki nema heilbrigt, að menn láti ekki hvern kenningaþyt þeyta sjer. Jeg álít það ekki góðs vísi, ef nýjar skoðanir eru strax gleyptar. Það ber miklu fremur vott um deyfð og doða.

Það er talað um, að kirkjan megi ekki verða ríki í ríkinu. En hún er það enn að nokkru leyti. Sóknargjöldin benda greinilega í þá átt. Það er ekki til neitt hliðstætt lækna eða sýslumannagjald. Það er eins og þetta eldi eftir af hinu forna sjálfræði kirkjunnar. Jeg veit heldur ekkert óguðlegt í því, þó kirkjan væri að einhverju leyti ríki í ríkinu, hefði jafnvel ráðgefandi þing um ýms mál kirkjunnar.

Jeg skil ekki suma þá menn, sem eru, ja mjer liggur við að segja, að glenna sig með aðskilnað ríkis og kirkju, en amast um leið við sjálfræði kirkjunnar innan ríkisvjebandanna. Þeir virðast ekki gæta þess, að með því eru þeir einmitt að reyna að gera kirkjuna að ríki í ríkinu, því sú hlýtur að verða afleiðingin af því að slíta öll bönd milli ríkis og kirkju.

Hv. þm. Borgf. (P. O.) vildi láta afnema biskupsembættið, og því væri ekki ástæða til að breyta neitt veitingaraðferðinni í það embætti. Hann byggir þar á lögum, sem alls ekki eru til. Það mætti æra óstöðugan að byggja á lögum, sem kunna að koma einhverntíma í framtíðinni. Jeg skil ekki, hvað er óeðlilegt við það að hafa biskup. Því skyldi ekki vera hafður kirkjumálastjóri, þegar yfirmenn eru hafðir yfir nær öllum öðrum málum þjóðfjelagsins, til dæmis vitamálastjóri, vegamálastjóri, fræðslumálastjóri o. s. frv. Það er beint hlægilegt að vera að slá sig til riddara á biskupsembættinu, sem er elst og merkast af þessum embættum. Það getur verið, að biskupinn hafi ekki mikið að gera. En jeg veit ekki til, að þeir liggi svo í leti og ómensku í stjórnarráðinu, að það þurfi að bæta við þá með því að afnema biskupinn.