01.04.1921
Efri deild: 32. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1685 í B-deild Alþingistíðinda. (1690)

77. mál, einkaleyfi til útgáfu almanaks

Sigurður Jónsson:

Mjer þykir talsvert óþægilegt, að formaður mentamálanefndar (K. E.), sem er frsm. þessa máls, er veikur og getur ekki mætt. En með því, að jeg óska, að málið tefjist eigi af þessari ástæðu, ætla jeg að mæla nokkur orð.

Jeg vil þá fyrst geta þess, að eitt orð hefir fallið úr nál. Þar stendur, að nefndin hafi ekkert fundið „við frv. að athuga“, að á eftir því átti að standa orðið „efnislega“. Brtt. á þskj. 189 eru sem sje orðabreytingar, og þær eru gerðar í samráði við þá, er samið hafa frv. Jeg þarf því lítið að minnast á þær. Aðeins vil jeg geta þess, að nefndinni þótti ekki orðið „rímbækur“ svara fullkomlega til þess, sem til var ætlast, og setti nefndin „dagatöl“ í staðinn. Það, sem við er átt, er það, sem á útlendu máli er nefnt „kalender“, en alþýða manna skilur svo orðið rímbók, að það sje átt við fingrarím eða annað þess háttar. Síðasta brtt. nefndarinnar er um það, hvenær einkarjetturinn skuli byrja. Fer brtt. fram á, að það verði ári síðar en frv. greinir. Er fyrir því sú aðalástæða, að almanak fyrir árið 1922 getur naumast orðið búið til útsendingar frá Háskólanum svo snemma, sem venja er til og nauðsyn krefur.

Fleiru hefi jeg ekki við að bæta, öðru en því, að það er ósk mentamn., að hv. deild samþykki frv. með þessum breytingum, sem nefndin leggur til, að gerðar verði á því.