02.03.1921
Efri deild: 12. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1704 í B-deild Alþingistíðinda. (1738)

59. mál, sóknargjöld

Frsm. (Guðmundur Ólafsson):

Jeg gat ekki heyrt á fyrstu ræðu hæstv. fjrh. (M. G.), að honum væri sárt um frv.; hafði ekkert gott orð um það að segja. Honum var sárt um tekjuaukann. Og jeg skil, að honum sje sárt um 170 þús. kr. Hann gat þess, að stjórnin ætlaðist til, að sóknargjöldin rynnu beint í ríkissjóð, í stað þess að nú lentu þau ekki lengra en til prófasts, en hann greiði svo prestum. Jeg sje ekki, að þetta geri mikinn mun, og síst til bóta. Hann taldi þessi gjöld hliðstæð aukatekjum sýslumanna, sem renna í ríkissjóð, en það er ekki, því að prestar fá sjerstaka borgun fyrir aukastörf sín, auk launa. (Fjrh.: Ekki messur). Alveg á sama hátt og borga þarf sýslumönnum fyrir sjerstök störf þeirra.

Háttv. 4. landsk. þm. (G. G.) taldi sig ekki hafa verið sammála meðnefndarmönnum sínum. Jeg man ekki eftir neinu ósamþykki á nefndarfundum, en utan fundar minnir mig, að einhver mintist á að hafa aðra aðferð, en þá var mótmælalaust búið að samþykkja á nefndarfundi að bera fram nýtt frv. í málinu.