14.03.1921
Neðri deild: 22. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 128 í B-deild Alþingistíðinda. (208)

34. mál, landsreikningar 1918 og 1919

Jakob Möller:

Það verður auðvitað ekki um það deilt, að kostnaðurinn við seðlaskömtunina er „útgjöld ríkissjóðs“ en ekki landsverslunar. Seðlaskömtun hefði vel getið verið nauðsynleg, og átt sjer stað, þó að engin landsverslun hefði verið, og hefði þá auðvitað ekki orðið hjá því komist að telja kostnaðinn með gjöldum ríkissjóðs. Sama er í raun og veru um erindrekakostnaðinn að segja.

Jeg hefi annars ekkert sjerlegt að athuga við orð hæstv. fjrh. (M. G.), en þætti að eins gott að fá nákvæma skýrslu um þennan kostnað við 3. umr. Jeg skil að þetta hafi komið hæstv. fjrh. (M. G.) á óvart, en jeg hafði búist við, að að þessu yrði vikið í framsögu, og fjármálaráðherra þá gert viðvart um það fyrirfram. Hinsvegar álít jeg, að ekki hafi verið hægt að koma fram með það í nál., þar sem hjer er í raun og veru ekki um athugasemdir við sjálfan landsreikninginn að ræða.