07.05.1921
Efri deild: 64. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1945 í B-deild Alþingistíðinda. (2081)

94. mál, hvíldartími háseta á íslenskum botnvörpuskipum

Frsm. (Karl Einarsson):

Sjávarútvegsnefndin varð á eitt sátt um að mæla með því, að frv. þetta væri látið ná fram að ganga, enda þótt flestum nefndarmönnum fyndist frv. ekki verulega nauðsynlegt, þareð það, sem þar er farið fram á, muni nú nokkurnveginn alment orðin regla. Þó vill nefndin láta frv. ganga fram því aðeins, að 2. gr. verði dálítið breytt. Vill hún láta taka þar skýrt fram, bæði að samningar, sem fara í bága við ákvæði greinarinnar, sjeu ógildir, og einnig að hásetum sje heimilt að vinna lengur í einu en þar um ræðir, þegar þeir sjálfir vilja leggja það á sig. Við gerðum nefnilega ráð fyrir, að eðlilegt væri, að þeir mættu vinna lengur, ef þörf krefði og þeir vildu það sjálfir. Því það er víst, að duglegir menn, sem eru vanir sjó, eru ekki uppgefnir eftir 18 tíma vinnu, ef þeir hafa byrjað á henni vel upplagðir.

Að öðru leyti vísa jeg til nefndarálitsins og legg til, fyrir nefndarinnar hönd, að deildin samþykki frv. með þessari breytingu.