04.05.1921
Neðri deild: 62. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1967 í B-deild Alþingistíðinda. (2129)

112. mál, fiskimat

Jón Auðunn Jónsson:

Háttv. þm. Borgf. (P. O.) hefir nú að miklu leyti tekið af mjer ómakið, en þó vildi jeg bæta nokkru við. Tilgangur sjútvn. var sá, að fá betur verkaðan fisk frá byrjun, og því verði þeir, sem selja fisk innanlands, líka að sæta mati.

Það felst í brtt. háttv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.), að sá fiskur, sem fluttur er óþurkaður út til Norðurlanda eða Englands, skuli einnig metinn. En þetta tel jeg mjög varhugavert, því vel má vera, að fiskur þessi verði síðar fluttur til Spánar, og mætti þá svo verða, að honum fylgdu íslensk matsvottorð og hann væri talinn sem íslensk vara, enda þótt hann væri verkaður í öðru landi.

Þekki jeg dæmi þess, að fiskur hefir verið keyptur hjeðan frá Englandi og Skotlandi, sætt þar illri meðferð, og verið svo seldur til Spánar eða Ítalíu. Gæti það orðið okkur til mesta tjóns og hnekt áliti á okkar fiski í þessum löndum, ef hægt yrði að klína því nafni á hann, að þetta væri íslenskur fiskur, verkaður hjer.

Vil jeg að ekki sje metinn annar fiskur en fullverkaður, svo og sá saltfiskur, sem seljast á annaðhvort til Spánar eða Ítalíu, eða þeirra landa, sem hann er notaður í til neyslu, en ekki til útflutnings.