02.05.1921
Neðri deild: 60. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1998 í B-deild Alþingistíðinda. (2181)

91. mál, fátækralög

Sigurður Stefánsson:

Allshn. taldi þetta frv. ekki þess eðlis, að það væri brot á meginreglu fátækralaganna, og taldi nefndin þessa breytingu frumvarpsins um greiðslu sjúkrakostnaðar vera hallkvæma, bæði fyrir ríkið og sveitirnar. Þess vegna gat hún fallist á það, með þeim breytingum þó, sem getið er um í nál. á þskj. 391.

Öðru máli er að gegna um brtt. háttv. 2. þm. Reykv. (J. B.) Nefndinni þótti þar svo mjög raskað grundvallarreglu fátækralaganna, að það eitt þótti næg ástæða til þess að leggjast á móti því, að þær næðu fram að ganga. Og þetta var því fremur, sem búast má við því, að stjórnin nú á næstunni láti endurskoða alla fátækralöggjöfina. Margir munu víst álíta, að þessi endurskoðun ætti þegar að vera búin að fara fram, en jeg get þó ekki talið stjórnina vítaverða, þótt ekki sje meiri skriður á það mál kominn. Jeg hefi nú fengist við fátækrastjórn upp undir 40 ár, bæði á meðan gömlu lögin voru í gildi og eins nú, undir nýrri lögunum, sem jeg tel hafa verið mikla rjettarbót. En það er auðvitað, eins og hæstv. forsrh. (J. M.) sagði rjettilega um brtt. háttv. 2. þm. Reykv. (J. B.), að þær eru alger röskun á þeim grundvelli, sem fátækralögin eru bygð á. Þetta er fleygur inn í fátækralöggjöf vora, og hlýtur að hafa ýmsar aðrar breytingar í för með sjer, sem gera verður, svo fult samræmi komist á í löggjöfinni. Mjer finst grundvallarstefnan í brtt. háttv. 2. þm. Reykv. (J. B.) ganga í þá átt að draga úr sjálfsbjargarhvöt einstaklingsins og koma honum til að varpa öllum sínum áhyggjum upp á það opinbera. Og mig furðar alls ekki, að þessar till. komu frá honum, því að hann fyllir þann flokk manna, sem vill að sjálfsbjargarhvötin verði sem minst hjá einstaklingnum, og ríkið taki þá upp á sína arma. Jeg held, að sum þessara ákvæða sjeu svo löguð, að til stórra vandræða mundi leiða hjer á landi, ef þau næðu fram að ganga. Okkur, sem fengist höfum við sveitarstjórn og fátækrastjórn, er kunnugt um það, að í sama bygðarlagi geta verið 2 menn, sem lifa við alveg sömu lífskjör og kringumstæður, nema annar þeirra á ef til vill 2 börn, en hinn fjölda barna, en kemst þó miklu betur af og er jafnvel með bestu gjaldendum í sveitarfjelaginu, þar sem sá með fáu börnin fer á sveitina. Hvaða orsakir liggja nú til þess, að svona fer? í mörgum tilfellum er það leti, ómenska og ráðleysi, sem veldur því, að menn fara á sveitina. Það, sem muninn gerir, er sjálfsbjargarhvöt og sómatilfinning einstaklinganna. Jeg held, að með þessum brtt. sje mönnum gefið undir fótinn að fara á sveitina, bæði þeim, er ekki vilja leggja sjerlega mikið á sig til að bjarga sjer og sínum, og jafnvel líka hinum, sem verjast vilja fátækrastyrknum. Brtt. verka á tvöfaldan hátt í þá stefnu, að leiðin á sveitina verði gerð sem allra greiðust. Það kemst á stakasta misrjetti milli dugnaðarmannsins og letingjans, og allar afleiðingar þess skella á því opinbera.

Jeg skal játa, að b-liður undir 1. hefir nokkuð til síns máls, en jeg er ekki ánægður með þetta „vottorð skilríkra manna“. Það er þá eftir að sanna, að alveg hafi verið ómögulegt að ná til læknis. Slíkt er mjög ósennilegt, eins og læknaskipun er nú fyrir komið hjá oss.

Þá kem jeg að atvinnuskortinum. Það getur verið nokkuð til í því, að ef þjóðfjelagið geti ekki útvegað manni atvinnu, þá sje hæpið, að hann ætti að fara á mis við öll rjettindi sín, þótt hann verði fátækrastyrksþurfi. En jeg hygg, að hjer geti komið til greina aðrir straumar í okkar þjóðlífi. Jeg veit ekki betur en að dæmi sjeu til þess, að verkamönnum sje bannað að vinna, nema þeir geri það fyrir hátt ákveðið tímakaup. Mjer dettur í hug sagan um mann, sem kom um daginn til fátækrastjórans hjer í Reykjavík og kvaðst ekki hafa haft atvinnu í 6 vikur, og yrði því að fá sveitarstyrk. Og er hann var spurður, hverju það sætti, svaraði hann, að honum væri bannað að vinna af verkamannafjelaginu, nema fyrir 2–3 kr. um tímann. Vjer sjáum af þessu, hver áhrif það gæti haft, ef brtt. þessi næði fram að ganga.

Þá er d-liðurinn, um að styrkur vegna elli skuli ekki talinn sveitarstyrkur. Þetta lítur nú ekkert illa út á pappírnum, en getur ófyrirsynju orðið byrði á sveitarfjelaginu. Gamalmenni flest eiga ættingja, og þeim þykir fæstum sæmandi að láta þessa ættingja fara á sveitina, geti þeir með nokkru móti hjálpað. En þessi hvöt hjá ættingjunum mundi að mun minka, ef styrkurinn væri ekki talinn sveitarstyrkur.

Jeg get tekið undir það með hv. frsm. (E. Þ.), að þessi töluliður 1. er ekki nærri eins óaðgengilegur og töluliður 2. í a-lið er ákvæði um það, að engan megi flytja fátækraflutningi, án hans samþykkis. Framfærslusveit hans á að hafa ánægjuna af því að sjá honum fyrir öllu, en hann á að ráða aðsetursstað sínum, þótt öll framfærsla hans verði miklu ódýrari fyrir framfærslusveitina, ef hann væri fluttur. í Reykjavík til dæmis er öll framfærsla þurfalinga margfalt dýrari en til sveita, það er jafnvel 1000: 100, ef hann er fluttur heim. Það væri ranglátt, að þurfamaður gæti bakað framfærslusveit sinni óbærilegan kostnað á þennan hátt. Þetta er slíkt hróplegt ranglæti, miðað við lögin, sem nú gilda, að mig furðar á því, að nokkur skuli vilja flytja þetta. Annað mál væri, ef breytt væri svo lögunum, að framfærslusveit væri þar, sem þurfalingur yrði fyrst styrkþurfi.

Um fyrningarákvæðið er þegar búið að tala mikið. Það eru mýmörg dæmi til þess, að sveitarskuldir borgast jafnvel 10–20 árum eftir á, t. d. úr dánarbúi þurfamannsins eða við arftöku manna. Líka hefir það komið fyrir í minni sveit, að þurfalingur hefir gifst með leyfi sveitarstjórnar, og við það orðið fær um að greiða skuld sína. En eftir þessu ákvæði á allur rjettur fátækrastjórnar að vera fyrir borð borinn. Jeg held því, að jeg verði ekki svo gamall, að jeg sjái mjer fært að greiða atkvæði með brtt., nema þá ef til vill í sambandi við gagngerða „revision“ á fátækralögunum. Rjettindamissirinn fælir margan mann frá því að leita fátækrastyrks, fyr en það er alveg óhjákvæmilegt, en þegar menn missa engin rjettindi með fátækrastyrknum, þá stendur þeim svo hjartanlega á sama.

Og jeg endurtek það að lokum, að mikill hluti af sveitarþyngslum landsins er því að kenna, að einstaklingarnir hafa ekki nent að bjarga sjer, eða farið ráðlauslega með efni sín. Jeg vona því, að háttv. deild samþykki ekki þessar brtt.