15.04.1921
Efri deild: 44. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 2015 í B-deild Alþingistíðinda. (2210)

105. mál, einkasala á áfengi

Forsætisráðherra (J. M.):

Jeg verð að segja það, að mjer hefði verið kærara, ef háttv. nefnd hefði getað fallist á frv. eins og það lá fyrir.

Jeg þykist vita, að háttv. flm. þessa frv. hafi borið sig saman við landlækni, sem er höf. hins upphaflega lyfjasölufrv., en jeg verð að segja, að fyrir mitt leyti get jeg vel gert mig ánægðan með þá niðurstöðu, sem nefndin hefir komist að. Má og vel vera, að ekki sje óskynsamlegt að byrja einmitt á frv. sem þessu, því þetta frv. er þó bygt á grundvelli stjórnarfrv. Þá er og fenginn sjerstakur umsjónarmaður og sjerstaklega hæfur til þess að hafa eftirlit með lyfjabúðum.

Það, sem háttv. 2. þm. S.-M. (S. H. K.) sagði, kom ekki beinlínis þessu máli við, er hjer liggur fyrir. Það var frekar viðkomandi bannlögunum, og ætti að takast til athugunar, ef bannlagabreyting sú, er stungið hefir verið upp á, kemur til umræðu. Brtt. þær, er hann hefir borið fram, einkum sú fyrri, eiga frekar að berast fram sem breytingar á bannlögunum sjálfum. Annars get jeg fallist á brtt. Vil þó geta þess, að jeg skildi hv. þm. ekki fyllilega, þegar hann var að tala um umsjónarmann áfengiskaupanna í sambandi við þetta mál. Það er alveg rjett hjá hv. þm., að þingið skar laun hans upphaflega um of við neglur sjer. En jeg held, að rjettara hefði verið að fá sjerstakan mann til að gæta laganna, sjerstakan bannlagavörð, sem litið hefði jafnframt eftir gæslu laganna.

Þetta gerðu Finnar, þegar þeir settu hjá sjer bannlög, og þeir fólu banngæsluna einmitt þeim manni, er verið hafði forgöngumaður bannsins, dr. Matti Helenius. Jeg skal svo ekki fara lengra inn á þetta atriði; held, að rjettara sje að geyma það og halda sjer við þetta mál, sem er hluti úr lyfjaverslun landsins. Ekki skal jeg heldur fara út í það, sem ábótavant hefir þótt við framkvæmd bannlaganna. Það verður sjálfsagt tækifæri til þess síðar. Og eigi skal jeg heldur ræða um reglugerðina frá 1916, sem vafasamt er, hvort var í samræmi við lögin yfirleitt, nje reglugerðina frá síðastliðnu ári; held þó að sú reglugerð hafi haft bætandi áhrif í ýmsum hjeruðum landsins.

Jeg skal svo að lokum endurtaka það, að jeg get gert mig ánægðan með niðurstöðu nefndarinnar að sinni. Og það gleður mig, að háttv. 2. þm. S.-M. (S. H. K.) hefir gefið frv. góð meðmæli, og það hefir mikla þýðingu í þessu máli, að meðmæli komi einmitt frá honum.