03.05.1921
Efri deild: 61. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 2038 í B-deild Alþingistíðinda. (2230)

105. mál, einkasala á áfengi

Sigurður Hjörleifsson Kvaran:

Háttv. 2. landsk. þm. (S. E.) hjelt því fram, að þessi ráðstöfun hefði enga þýðingu fyrir bannlögum, og yrði þeim því aldrei að liði.

Hann líkti umsjónarmanni áfengiskaupanna við krana, sem vínið rynni í gegnum inn í landið. Samlíkingin er ekkert óheppileg, og get jeg vel fallist á hana. En nú er spurningin um það, hvernig þessi krani eigi að vera eftirleiðis, og hve mikið megi um hann renna.

Nú eru engin ákvæði til um það, hve mikið vín megi fara til lyfjabúða, lækna eða dýralækna, eða til iðnaðar og suðu. Þetta áfengi rennur því hindrunarlaust í gegnum þennan krana, og þá vantar auðsjáanlega eitthvað í hann, svo að hægt sje að snúa fyrir hann.

Hjer er því um það að ræða að setja tappa í krana þennan, svo eigi renni um hann nema eftir vissum reglum, og ætti það að verða að nokkru liði. Þessi tillaga miðar því að því að draga úr áfengisinnflutningi til landsins, því að samkvæmt lögum þessum á nú að takmarka áfengi til lyfsala, lækna og dýralækna, því að hingað til hafa þeir allir fengið það eftir því, sem þeir hafa óskað, nema ef til vill síðastliðið sumar; þá var eitthvað verið að takmarka það. En sú takmörkun var þó eigi meiri en það, að áfengi var sent út um alt land, undir fölsku nafni, svo sem þessir frægu vanilledropar o. fl.

Það er því áreiðanlegt, að ef þessar brtt. mínar verða samþyktar, þá er það vanrækslu umsjónarmannsins að kenna, ef áfengið flóir eins út yfir landið eftir sem áður. Því að hann á að snúa fyrir kranann eftir þessum settu reglum, einungis eftir því, sem þörfin krefur.

Jeg get því eigi skilið, hvernig háttv. 2. land.sk. þm. (S. E.) getur haldið því fram, að þetta sje ekki til neinnar verndar fyrir bannlögin.

Það er öllum kunnugt, að iðnaðaráfengi, sem hefir verið selt í gegnum lyfjabúðirnar, undir eftirliti lögreglustjóra, hefir verið mjög misbrúkað. Og það er eigi hægt að ætlast til, að landlæknir hafi getað litið eftir því, enda ekki í hans verkahring. Hjer er því verið að setja sjerstakan mann til þess að hafa eftirlit með þessu, og ennfremur með suðuspritti, sem áður hefir verið eftirlitslaust.

Hjer er því gert alt til þess að vernda landið fyrir þeirri óhæfu, sem altof mikið hefir borið á nú að undanförnu.

Jeg skal og geta þess, að jeg legg ekki svo mikið upp úr þeirri ástæðu, að það sje mjög nauðsynlegt að skipa sjerstakan lyfjafræðing, til þess að hafa eftirlit með lyfjabúðunum, því að lyfin eru keypt hjá mjög vel þektum og viðurkendum verslunarhúsum, og fyrir því er ekki beinlínis þörf á að hafa eftirlitið svona alhliða. En hins vegar neita jeg því ekki, að eftir því sem lyfjabúðunum fjölgar, þá verður meiri þörf fyrir það að hafa eftirlitsmann með þeim. Og hefir allmikil breyting orðið á þeim síðan núverandi landlæknir tók við embætti, því að þá voru þær aðeins fjórar, en nú eru þær orðnar 9, og hin tíunda er í aðsigi.

Þá vil jeg og benda á það, að t. d. sótthreinsunarmeðul, sem landið þarf að útvega, hljóta að verða ódýrari með því að fá þau í gegnum forstöðumann þessarar áfengisverslunar heldur en á annan hátt.

Það er því ýmislegt, sem mælir með þessu frv. frá mínu sjónarmiði. En eins og jeg hefi áður tekið fram, þá legg jeg mestu áhersluna á það, að það verði aðeins einu maður í þessu landi, sem ber ábyrgð á áfengisversluninni. Og að honum er því að ganga, ef eitthvað fer í ólagi.