15.02.1921
Sameinað þing: 1. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 39 í B-deild Alþingistíðinda. (24)

Rannsókn kjörbréfa

Frsm. minni hl. 1. kjörbrjefadeildar (Benedikt Sveinsson):

Jeg skal ekki lengja mjög umræðurnar; það er orðið svo áliðið. (G. Björnson: Og allir orðnir leiðir). Hæstv. forsætisráðherra (J. M.) talaði um það, að það mundi hafa getað verið vænlegra til fylgis fyrir stjórnina að láta kosninguna fara fram í tvennu lagi, en þó hefði hún ekki gert það, af því að það væri rangt. Þetta sýnir nú ekki annað en það, hvað hæstv. forsætisráðherra (J. M.) getur enn þá verið spaugsamur, þrátt fyrir alt það, sem á dagana hefir drifið. Kemur það ekki sem best heim við nýafstaðna kosningabaráttu, er það þótti vænlegast hverju þingmannsefninu til kjörfylgis að vera öðrum eindregnari andstæðingur stjórnarinnar.

Það verður ekki varið, að kærufresturinn var miklu styttri en lög heimila. Fyrst fjórir dagar, en síðan var bætt við fimm dögum. Að lögum á hann að vera 23 dagar frá því er aukakjörskrá er auglýst. Varnir háttv. 1. þm. Reykv. (Jak. M.) eru því gripnar úr lausu lofti, enda vildu hinir þingmenn Reykvíkinga lengja frestinn, og var það nokkur bót í máli. Fyrir bragðið komust allmiklu fleiri á kjörskrá en ella hefði kostur verið, og þótt ekki væri að lögum farið, þá var þó betra fyrir þessa menn að komast á ólöglega kjörskrá en að fara á mis við rjett sinn með öllu.

Þm. (Jak. M.) kvað það ekki upplýst, að nokkrir hefðu kosið, sem ekki hefðu kosningarrjett. Svo var þó — það veit jeg með vissu, og get sannað hvenær sem vill.

Háttv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) sagði, að kosningalögin frá 1915 væru alls ekki einhlít, til að búa til kjörskrá eftir þeim. Þau mæla svo fyrir, að taka skuli þá á kjörskrá, sem vitanlegt þykir, að fái kosningarrjett á árinu. Nú var það vitanlegt, að þessir menn mundu fá kosningarrjett á árinu. Því að engum datt í hug að efast um, að konungur mundi staðfesta stjórnarskrána. — En það er sitt hvað: lagaákvæði og framfylgd laga. Það má brjóta öll lög, svo að það er enginn ljóður á lögunum frá 1915, þótt kjörstjórn færi ekki eftir þeim.

Þá vildi háttv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) enn fremur bera í bætifláka fyrir það, að einni kjördeild hefði verið lokað. Bar hann þar fyrir sig skoðun eins lögfræðings. En skoðun þessa lögfræðings mun víst vera einsdæmi, og sannast þar hið fornkveðna, að einsdæmin eru verst. Það hefir verið venja í Reykjavík, þegar einni kjördeild hefir verið lokað, að þá hafa menn átt kost á að kjósa í annari kjördeild, enda ekki hægt að líkja kjördeildum hjer við kosningar í einstaka hreppum í öðrum kjördæmum. Að skift er í kjördeildir, er að eins gert kjósendum til hægðarauka. Það er hvergi heimilað að loka svo kjördeild, að ekki fái allir að kjósa jafnlengi, enda væri það undarlegt misrjetti þeirra manna, sem allir eru á einni og sömu kjörskrá.

Viðvíkjandi því, sem sami háttv. þm. (J. Þ.) sagði, að kjörskrárnar hefðu ekki verið 5, heldur 9, þá vil jeg geta þess, að mjer finst þetta síst til málsbóta. Hitt er vafasamt, hvað kalla skal sjerstaka kjörskrá. Annars munu þær hafa verið 7: Aðalkjörskrá, viðauki við hana, aukakjörskrá, viðauki við hana, ný viðaukakjörskrá og tvennir viðaukar við hana. Þurfti því að leita í sjö kjörskrám, er nöfnum hverrar um sig var raðað sjerstaklega eftir stafrófsröð. Hitt tel jeg ekki sjerstakar kjörskrár, þótt aðalkjörskrá sje hlutuð sundur meðal kjördeilda, ein fái t. d. A–C, önnur D–G o. s. frv.

Háttv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) sagði, að þetta fordæmi, að loka einni kjördeild, drægi ekki neinn dilk á eftir sjer í öðrum kjördæmum. En það er ekki rjett að láta mönnum hjer í Reykjavík haldast uppi að gefa fordæmi að löglausri kosningu. Þingið á að stuðla að því, að lögin sjeu ekki brotin.

Jeg vil í þessu sambandi benda á nýtt, mjög mikilvægt atriði, er ekki hefir verið minst á áður, en enginn getur neitað, að svo miklu skiftir, að kosningaúrslitin gátu orðið alt önnur, ef farið hefði verið um það efni að tilætlun laga.

Vissulega er það tilætlun laganna, að allir kjósendur geti notið kosningarrjettar síns á kjördegi. En með fyrirkomulagi kosningarinnar var fyrir það girt, að meira en þrír fjórðu hlutar kjósenda gata notið rjettar síns. Fjórða hluta allra kjósenda var fyrirfram bægt frá að taka þátt í kosningunni! Skal jeg nú leiða rök að þessu.

Samkvæmt kosningalögunum má kosningaathöfnin ekki byrja fyr en kl. 12 á hádegi, en vegna þess, að kjörstjórnin þurfti tíma til undirbúnings, áður en hægt var að byrja kosningu, þá var ekki opnað fyr en kl. 123/4. Nú var kosið til kl. 11 í einni kjördeild, en í hinum til kl. 12 eða 121/2. 5400 manns nutu kosningarrjettar síns, en ca. 8000 voru á kjörskrá.

Það má kalla að kosning gangi greiðlega, ef 60 kjósendur komast að í hverri kjördeild á klukkustund. Þetta er gömul og ný reynsla. — Nú voru kjördeildirnar aðeins átta. Þótt kosning hefði staðið í þeim öllum til kl. 12 á miðnætti — og lengur er ekki hægt að ætla kjósendum að bíða þess að fá neytt rjettar síns — þá hefðu ekki, frá kl. 1 miðdegis getað kosið fleiri en 5280. En á þeim fjórðung stundar, sem kosningin stóð fyrir kl. 1 miðdegis, gátu kosið 120 kjósendur. Kemur þá út talan 5400, eða nákvæmlega sú tala. sein kosningar neytti. Og þennan tíma, sem næst, stóð kosningin til jafnaðar í öllum kjördeildum, því að það, sem vantaði upp á tímann í einni kjördeildinni, vanst upp við það, sem kosningin stóð fram yfir miðnætti í sumum hinna. Hvenær gátu nú þær 2–3 þúsundir kjósenda, sem eftir voru, neytt kosningarrjettar síns? — Aldrei, því að til þess, að kosningaathöfnin stæði ekki óhóflega langan tíma, hefðu kjördeildirnar þurft að vera 12 í stað 8. En með svona fáum kjördeildum var gersamlega ómögulegt annað en bægja minst hálfu þriðja þúsundi frá kosningu.

Hjer er ekki hægt að kenna um áhugaleysi þeirra, er ekki gátu neytt kosningarrjettar síns. Nógu mikið var kappið, nógu margir flokkarnir, blöðin, smalarnir og bifreiðarnar, og þó var kosningin miklu ver sótt hjer heldur en oft gerist úti um land í strjálbygðum hjeruðum. Ástæðan var sú, að menn komust ekki að til að kjósa, og hver neitar, að það hafi haft áhrif á kosningarúrslitin?

Það er að vísu ekki hægt að sanna, hve margir það voru, sem hurfu frá, en hitt er víst, að fólkið fór í straumum fram og aftur; fjöldi varð frá að hverfa hvað eftir annað, sumir komust að seinna, en aðrir ekki, og einatt hlutu tvær til þrjár þúsundir að verða útundan.

Hvernig sem atkvgr. fer í þessu máli, þá skýt jeg því til þingmanna Reykjavíkur að bera fram frumvarp þegar á þessu þingi, sem varnar því, að margar þúsundir kjósenda hjer í bæ verði framvegis sviftar atkvæðisrjetti sínum á þennan hátt.

Háttv. þm. N.-Ísf. (S. St.) kvað það vera gamla reglu í þinginu að taka gilda kosningu, þótt gallar væru á henni, ef sannanlegt væri, að þeir gallar hefðu ekki haft nein áhrif á kosningarúrslitin. Háttv. þm. (S. St.) sjest hjer yfir, heldur en ekki, því að tekin hefir verið gild kosning, þótt þeir gallar væru á, sem algerlega breyttu kosningarúrslitum. Það eru jafnvel dæmi til þess, að þingmaður hafi verið kosinn, þótt hann byði sig aldrei fram. Annað dæmi get jeg nefnt af kosningu, sem fór fram á Vesturlandi. Þar voru tvö þingmannaefni, og hafði annað þeirra meiri hluta atkvæða. Nú er regla að einbrjóta atkvæðamiðana, en á einum kjörstaðnum höfðu þeir verið tvíbrotnir. Meiri hluti Alþingis taldi ógilda tvíbrotnu miðana, og sá var talinn þingmaður kjördæmisins, sem í raun og veru hafði mun færri atkvæði. Hann flaut inn á þing vegna tvíbrotnu seðlanna. Það var því rjett, sem í gamni var sagt, að sá þingmaður væri þá einsdæmi á Alþingi, er hann var hvorki þjóðkjörinn nje konungkjörinn, heldur þingflokkskjörinn.

Jeg verð að halda því fram, að þar sem um margvísleg, gömul og ný og sívaxandi lagabrot er að ræða í svo mikilsverðu máli, sem þingkosningar eru, þá verði að gera það eftirminnilegt þeim mönnum, er því valda. Og því hefi jeg verið svo harður í tillögum mínum hjer í dag.