19.05.1921
Neðri deild: 74. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 2395 í B-deild Alþingistíðinda. (2517)

117. mál, seðlaútgáfa Íslandsbanka hlutafjárauka o. fl.

Eiríkur Einarsson:

Hæstv. fjrh. (M. G.), sem jeg hjelt að mundi taka brtt. mínum feginsamlega, verður hið versta við, og þykir mjer það undarlegt. Ákvæðið um 3 milj. kr. handa Landsbankanum er ættað frá stjórnarfrv., og var það atriði þess, er gaf því helst gildi. Ráðherrann er meira að segja orðvondur og talar um afturgöngur. Háttv. 1. þm. Reykv. (Jak. M.) tók það rjettilega fram, að brtt. mínar verða síst nefndar því nafni. Þær eiga skyldast við frv. háttv. þriggja Nd.-þingmanna, er aldrei hefir sálast, en gekk hið síðasta, er maður sá til þess, til 2. umr., og var hið besta þessara frv., er fram hafa komið í bankamálum. Verði því um afturgöngur að ræða í sambandi við þetta mál, munu þær varla koma fram fyr en víg hafa farið fram, og verða þeir þá að líkindum fyrst fyrir slíku, er leggja á banaráðin. Hefir hæstv. fjrh. (M. G.) hjer gert sitt til í þeim efnum, er hann legst á móti góðu máli, og hittir hann sig þar sjálfan fyrir.

Um brtt. mína viðvíkjandi bráðabirgðaskipulagi seðlaútgáfunnar vil jeg taka það fram, að hún er í samræmi við frv. að öðru leyti. Það hefi jeg tekið fram áður við umr. þessara mála. Það, sem jeg vildi fyrst koma í veg fyrir, er afsláttarpólitíkin, að slakað verði á öllu að óreyndu, hvort saman gengur við bankann.

Gerist hæstv. fjrh. (M. G.) ólíkur sjálfum sjer, ef hann vill setja Íslandsbanka þyngri kosti í þessum efnum og þykir jeg gefa honum helsti undir fótinn með ákvæðinu. Ef ráðherrann getur haldið þessu málefni í enn tryggara horfi en jeg hefi gert tillögu um, hvernig sem fer, skyldi það gleðja mig.