20.05.1921
Neðri deild: 76. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 2483 í B-deild Alþingistíðinda. (2641)

122. mál, útflutningur og sala síldar

Bjarni Jónsson:

Það hafa nú margir talað í svipaða átt, sem jeg hugðist að tala. Vildi jeg þó gera nokkrar sundurlausar athugasemdir.

Mjer sýnist sem háttv. Ed. hefði getað farið mýkri höndum um frv. þetta en hún hefir gert, en þar fyrir tel jeg þó sjálfsagt að samþ. frv., því jeg treysti vel stjórninni til að gera sjer mat úr leifunum.

Í takmörkunarákvörðunum, hve mikið mætti veiða, tel jeg mikla eftirsjá, en jeg hygg, að stjórnin geti haft nokkurn hemil á því. Mun stjórnin í hrossakaupum sínum hafa ákveðið, hversu marga hesta skyldi kaupa, og mun hún eins geta farið hjer að og ákveðið, hve margar síldartunnur hún vill hafa. Ef meir veiðist en hæfilegt þykir til sölu á erlendum markaði, þá verða síldareigendur að selja hana til skepnufóðurs, bræða lýsi úr henni eða nota hana á einhvern annan veg.

Hygg jeg, að stjórnin geti hjer mikið að gert, ef hún fylgir trúlega orðtækinu „farðu djarflega, en þó varlega, Gísli minn“. En þá kröfu geri jeg til stjórnarinnar, að hún noti þessa heimild og telji hana fyrirskipun frá Nd. Alþingis. Hygg jeg, að ef stjórnin hefði haft söluna á hendi, þá mundi það eigi hafa komið fyrir 2 árin síðustu, að borgað væri fyrir að moka íslenskri síld í sjóinn. Lá þá fyrir stjórninni tilboð um kaup á strandvörsluskipi fyrir einungis 150000 kr., og mátti greiða andvirðið alt í síld. Ef stjórnin hefði fest kaupin þá, ættum við nú fagurbúin skip fyrir síldina, sem grotnaði í Eystrasalti, og borgað var um 10 kr. á hverja tunnu fyrir að koma henni í sjóinn. Varla mundi það heldur hafa komið fyrir, ef stjórnin hefði haft söluna á síðastliðnu sumri, að feiknin öll af síld væri flutt til Stokkhólms í gömlum og ónýtum tunnum, sem ekki þoldu hristing skipsins á leiðinni. Eigi mundi þá heldur hafa verið dyngt þangað í einu 4 skipsförmum af síld, heldur mundi hún hafa verið flutt þangað smátt og smátt.

Mætti lengur telja, þó jeg hirði eigi um, enda er þetta nóg til þess, að jeg hika eigi við að greiða frv. atkv., þó að jeg teldi hins vegar, að betur hefði á farið, að frv. gengi enn millum deilda og fengi sína endanlegu sköpun að rjettum þingsköpum. En á því mun enginn kostur, því að jeg hygg, að þingmaðurinn Sterling, sem nú ræður mestu um þingslitin, hindri það. Veit jeg eigi, hvaða kjördæmi hefir sent þennan þingmann. (M. P.: Hann er landskjörinn). Jæja, þá mun hann því síður láta undan þoka. En þá áskorun mína til stjórnarinnar vil jeg endurtaka, að hún telji sjer það skyldu að nota þessa heimild í samræmi við vilja Nd.