20.05.1921
Neðri deild: 76. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 2492 í B-deild Alþingistíðinda. (2649)

122. mál, útflutningur og sala síldar

Magnús Jónsson:

Það er aðeins stutt athugasemd viðvíkjandi söluaðferðinni. Jeg tel óhugsandi, að stjórnin taki að sjer að selja einstök „parti“ fyrir einstaka menn, heldur verður hún að skoða alla síldina sem eina heild og láta höpp og óhöpp jafnast á heildina alla. Það getur því ekki komið til mála, að einstakir útlendingar geta fengið að kaupa sinn eigin afla af sjálfum sjer, og farið svo með hann eftir sem áður á undan öðrum og spilt með honum markaðinum. Þeir geta ef til vill fengið afla sinn keyptan, ef stjórninni líst svo, en þá verða þeir að borga fyrir hann það verð, sem stjórnin telur gott verð, og andvirðið rennur til allra síldarframleiðenda að rjettri tiltölu. Mundu þeir þá sennilega minna ákafir í það, og alls ekki að það sje sama sem að þeir gætu „stungið af“ með aflann, eins og þeir gera nú, til stórskaða fyrir Íslendinga.