24.02.1921
Neðri deild: 8. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 39 í C-deild Alþingistíðinda. (2672)

14. mál, bann innflutnings á óþörfum varningi

Einar Þorgilsson:

Hæstv. atvinnumálaráðherra (P. J.) gat þess í ræðu sinni, að það væri ekki tími til eldhúsdags nú; jeg ætla heldur ekki að verða þess valdandi. Vil aðeins segja örfá orð til að lýsa afstöðu minni til þessa frv., sem fyrir liggur.

Þegar síðasta Alþingi, með lögum frá 8. mars, heimilaði landsstjórninni að takmarka og banna innflutning á óþarfa varningi, þá var það í samræmi við skoðun mína á málinu, enda greiddi jeg atkvæði með því. Og sama get jeg sagt um bráðabirgðalögin frá 20. apríl f. á., sem hæstv. stjórn gaf út. Þá voru útlendar vörur í afarháu verði og þó stígandi, en innlendar vörur byrjaðar að falla í verði til muna. Jeg áleit, að sjálfsagt væri að reyna að takmarka innflutning á vörum, svo að framleiðslan í landinu og útflutningur innlendrar vöru gæti jafnast við innflutninginn, ef kostur væri. Það áleit jeg ríkinu, eins og hverju búi, hollast. Þess vegna var jeg því samþykkur, að innflutningsnefnd væri sett á fót, til að takmarka innflutning á óþörfum varningi, og lög samin í þeim tilgangi. Raddir hafa komið fram um það, að innflutningsnefndin hafi ekki beitt valdi sínu rjett, enda er það tíðast svo, að sá fær eigi lof, sem á ljósinu heldur, en jeg lít nú svo á, að of mikið sje gert að því að lasta framkvæmdir hennar.

Því hefir verið haldið fram, að innflutningshöftin hafi ekkert dregið úr innflutningnum, en þetta er ekki rjett; menn aðgæta það eigi, að sá óþarfavarningur, sem seldur hefir verið hjer síðan nefndin tók til starfa, var mestallur fluttur inn í landið áður. En þótt jeg lýsi því yfir, að jeg hafi verið samþykkur, að innflutningshöftunum væri komið á, þá felst eigi í því, að jeg álíti rjett að halda þeim við, eins og nú er ástatt, því sú breyting er á orðin, að verðfall er komið á margar erlendar vörutegundir, og enda þótt það sje ef til vill eigi svo mikið sem af er látið, þá er samt vist, að það er nokkuð og heldur áfram, og því er það eins nauðsynlegt nú að leysa innflutningshöftin af, svo að verðfallið á erlendu vörunum fái að verka á hag einstaklingsins og atvinnuvegina, sem eru nú mjög aðkreptir vegna dýrtíðar þeirra erlendu vörutegunda, sem þarf til viðurhalds og framleiðslu, en verðleysis á innlendum afurðum. Eina ráðið, sem virðist nú fyrir hendi, til þess að ljetta undir með atvinnuvegunum, er að fá þær þarfir, sem útheimtast til þeirra, sem ódýrastar, jafnframt því að reyna að koma afurðum þeirra í sem hæst verð.

En eina ráðið til þess að ljetta af dýrtíðinni er að leyfa innflutning á hinni verðföllnu og fallandi vöru.

Hæstv. fjármálaráðherra (M. G.) gat þess í ræðu sinni, að ráðið til að minka dýrtíðina væri ekki frjáls innflutningur, heldur að lækka verð þeirrar vöru, sem liggur í landinu, en jeg mótmæli þessu sem ógerlegu og óvinsælu, án þess að innflutningur ódýrari vöru hafi áhrif á niðurfærsluna. Eigi t. d. að miða hið niðurfærða verð vörunnar við verð á samskonar vöru erlendis, sem heyrist í frjettum, þá verður um leið að ganga úr skugga um, hvort vörugæðin eru hin sömu, og það hlýtur að liggja öllum í augum uppi, hversu miklum erfiðleikum þetta er bundið, svo að sannraun sje.

Nei, eina ráðið er að afnema innflutningshöftin, og það má ekki horfa í það, þó einstakir menn kunni að bíða skaða af því, að innflutningshöftunum er af fljett; þeir verða að sætta sig við það, — enda mælir líka sanngirni með því, því meðan varan fór síhækkandi, nutu þeir þess, að geta fært upp verð á ódýrari innkeyptri vöru, sem þeir lágu með.

Af þessum ástæðum, sem jeg hefi nú talið, er jeg því algerlega samþykkur að afljetta viðskiftahöftunum á þörfum varningi.

Þess hefir verið getið, að það stæði fyrir dyrum, að mjólkurkýrnar okkar — togararnir — yrðu bundnar við garðana hjerna. Ráðið til að afstýra þessu er afnám innflutningshaftanna, og ekkert annað getur komið að haldi, því að enda þótt verðfallið sje enn eigi svo mikið, að það eitt sje nægilegt til að afstýra voðanum, þá verður það þess umkomið, ef það heldur áfram. Jeg vonast nú til, að hv. þingdeild hafi skilið afstöðu mína til málsins.