21.03.1921
Neðri deild: 28. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 85 í C-deild Alþingistíðinda. (2696)

14. mál, bann innflutnings á óþörfum varningi

Magnús Jónsson:

Byrinn í þessu máli er nú svo í þessari hv. deild, að litlar umr. þarf um það. En í umræðunum í fyrradag var fleira dregið inn í, sem sje um óþarfavarning og hvaða afstöðu skuli taka til innflutnings á honum. Jeg sje líka varla, að hægt sje að komast alveg hjá að ræða þá spurningu, þó eiginlega sjeu það aðeins bráðabirgðalögin frá 15. apríl, sem greiða á atkv. um. Bráðabirgðalögin frá 15. apríl byggjast á heimildarlögunum frá 8. mars 1920, og viðskiftanefndin er skipuð samkvæmt þeim. Mjer virðist því óeðlilegt, þegar fella á bráðabirgðalögin, að skilja eftir þann grundvöll, sem þau voru bygð á. Nefndin hefir líka sjeð þetta og því tekið afstöðu til heimildarlaganna, þar sem segir svo í nál.: „Það hefir orðið samkomulag í nefndinni að fallast á það, að heimildarlögin frá 8. mars 1920 hjeldust í gildi fyrst um sinn. “Enn fremur hefir nefndin skýrt, hvað í heimildarlögunum felist, nefnilega að með „óþörfum varningi“ sje aðeins átt við óþarfar vörutegundir. Og einnig ákveðið, hvernig stjórnin á að framfylgja þeim; hún á ekki algerlega að hefta innflutning þeirra, heldur má hún veita undanþágur.

Hæstv. atvrh. (P. J.) benti á, að það væri tilætlun stjórnarinnar að nota þessa heimild. Jeg skildi svo orð hans, að ekki væri hægt að sleppa innflutningshöftunum fyr en búið væri að semja nýja reglugerð. Mjer finst því, að úr því að nefndin tók þessa stefnu, að nema þau ekki úr gildi, þurfi að ræða, hvort það sje þó ekki heppilegra.

Viðskiftanefndin virðist vera á einu máli, bæði um að fella bráðabirgðalögin frá 15. apríl og sömuleiðis um að láta heimildarlögin standa. Mjer virtist þó ekki vera eins mikið samræmi innan nefndarinnar í umr. eins og í nál., því hv. þm. V.-Ísf. (Ó. P.) beindi þeirri áskorun til stjórnarinnar að nota þau ekki. Þetta bendir á, að hann, persónulega, sje á móti heimildarlögunum, því yrði stjórnin við áskorun hans, væru lögin úr gildi „reelt“, þó þau ekki væru það „formelt“. — Í hinni skýru framsöguræðu hv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) kendi og þess, að hann væri andvígur heimildinni. Hann sagði það að vísu ekki beinum orðum, en öll röksemdaleiðsla hans sýndi, hve lítið gagn hann áleit að yrði af því að halda þessum leifum. Hann benti á, hve lítil sú upphæð væri, sem borguð hefði verið fyrir óþarfavarning, eftir því sem nefndinni reiknaðist. Og hún hlýtur að verða enn minni, þegar kaupgetan hjer á landi er svo lítil sem nú. Því kaupgetuleysið hlýtur fyrst að koma niður á óþörfu vörunni, því án hennar geta menn helst verið.

Ekki er hægt að vitna í það, að meira hafi verið flutt inn af óþörfum varningi en skýrslur geti um, eins og hv. 2. þm. Árn. (Þorl. G.) gerði, því þær vörur verða fluttar inn þrátt fyrir alt bann og allar hömlur.

Viðvíkjandi því, að banna algerlega innflutning ákveðinna vörutegunda, þá hygg jeg, að það sje varhugavert og muni aldrei geta gengið. Hv. þm. Borgf. (P. O.) og hv. 1. þm. N.-M. (Þorst. J.) töldu upp margar slíkar óþarfar vörutegundir, sem hægt væri að banna algerlega innflutning á. En eins og hæstv. atvinnumálaráðh. (P. J.) benti á um daginn, þá geta þarfar vörur undir vissum kringumstæðum orðið óþarfar, og þannig geta einnig óþarfar vörur orðið þarfar. Háttv. þm. Borgf. (P. 0.) talaði t. d. um niðursoðið kjöt og fisk sem óþarfa vöru, en þetta hvorttveggja getur hjer í Rvík orðið að þarfri vöru. Sama er með vasaúrin, sem hann og nefndi; þau þurfa ekki ætíð að vera óþarfi. Annars hygg jeg, að sparnaðurinn af innflutningsbanni á slíkum vörum yrði hverfandi. Hann yrði meira í orði en á borði, því þær mundu koma inn í landið þrátt fyrir það.

Hæstv. forsrh. (J. M.) benti á einu heilbrigðu leiðina til að spara, samtök þjóðarinnar sjálfrar í þá átt. Það er það eina, sem getur fengið þjóðina til að spara, en ekki hitt, að halda í leifar af viðskiftahömlunum.

Aðeins eitt getur rjettlætt að láta heimildarlögin standa, nefnilega ef þau eru nauðsynleg pappírslög, ef það er nauðsynlegt fyrir stjórnina að geta sýnt, að einhverskonar innflutningshöft sjeu hjer. Annað gagn geta þau aldrei gert.

Hin háttv. nefnd á þakkir skilið fyrir að hafa flokkað vörumar og sýnt, hve lítið er hjer um að ræða. Og nú er sjálfsagt hægt að telja í mjög smáum tölum, hvað keypt er af óþarfavarningi. Það er einkennilegt að fara nú að banna innflutning á honum, þegar búast má við að sama og ekkert verði af honum keypt sökum fjárskorts, úr því það var ekki bannað þegar allir höfðu fulla vasa af peningum og keyptu í óhófi. Einu vörurnar, sem hægt væri að spara, svo nokkru nemi, eru tollvörurnar. En það er hart að stöðva þá tekjulind, þegar gert er ráð fyrir 9 miljóna útgjöldum. Það er að minsta kosti lítið samræmi, ef þeir hinir sömu vildu það, sem sagt hafa, að þyrfti að afnema bannlögin til að ná í toll af víni í ríkissjóð.

Jeg er að því leyti undrandi yfir nefndarálitinu, að nefndarmennirnir skyldu allir verða sammála um, að heimildarlögin frá 8. mars skuli standa. En nú hygg jeg, að jeg hafi fengið skýringuna á þessu í þeim ummælum hv. þm. Ak. (M. K.), að hann hafi fylgt meiri hluta nefndarinnar til að koma þó þessu fram. Jeg veit ekki, hvort eitthvað svipað þessu kemur oft fyrir. En fullkomlega heiðarleg aðferð er þetta ekki nje heppileg upp á skýrar niðurstöður og hreinar línur. En með slíku samkomulagi, sem hefir átt sjer stað í viðskiftanefnd þessari, getur komið fram nefndarálit, sem ef til vill enginn nefndarmannanna er samþykkur.

Heimildarlögin ættu að afnemast. Þótt hv. þm. V.-Ísf. (Ó. P.) hafi sagt, að þau ættu að verða pappírsgagn, þá er það ekkert nema orð. Því stjórnin er ekkert bundin við slíkt, heldur lögin, og því ætti að afnema þau.

Til að gefa ekki falskar vonir hefir hæstv. atvrh. (P. J.) tekið það fram, að ekki muni hægt að afnema innflutningsnefndina strax, hún muni verða að standa til mánaðarloka, því hún geti ekki farið frá fyr en ný reglugerð væri samin. Jeg sje ekki betur en að stjórnin standi nú eins að vígi og þegar bráðabirgðalögin voru gefin út í fyrra, nema að því leyti, að hún veit nú, að þingið getur ekki fallist á þá leið, sem hún fór þá með framkvæmd heimildarlaganna. Að öðru leyti hefir hún jafnóbundnar hendur.