21.03.1921
Neðri deild: 28. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 152 í C-deild Alþingistíðinda. (2728)

61. mál, skipting Ísafjarðarprestakalls

Frsm. meiri hl. (Pjetur Ottesen):

Jeg vil ekki fjölyrða um sáttasemjarann, hv. 1. þm. Rang. (Gunn. S.), en jeg hefi aldrei kallað hann til sætta; hann kom þar óbeðinn. Jeg vil heldur snúa mjer að hv. frsm. minni hl. (S. St.) og hv. þm. Ísaf. (J. A. J.), og þótti mjer framkoma þeirra alleinkennileg. Þeir mæltust til þess, að frv. yrði felt sem fyrst, og get jeg orðið við þeim tilmælum þeirra fyrir mitt leyti. Það hefir verið gert mikið að því að útmála allar þær hættur, sem væru á veginum milli Bolungarvíkur og Ísafjarðar, og legg jeg hæfilegan trúnað á þær sögur, en sú verður niðurstaðan, að það er rjett, sem meiri hl. allsherjarnefndar heldur fram, að þörfin fyrir því að skifta þessu embætti sje ekki, þegar öllu er á botninn hvolft, neitt brýnni en sumstaðar annarsstaðar, — ef um þörf er að ræða í því efni.

Það hefir komið fram dálítil mótsögn hjá formælendum þessa máls, sem menn hafa ef til vill tekið eftir. Það er sögð venja, að presturinn fari út í Bolungarvík á laugardögum og verði þar yfir helgina, og stundum dveljist honum þar lengur. Þetta er talið mjög óþægilegt fyrir prestinn. En um leið er kvartað yfir því, að presturinn geti aldrei dvalið í Bolungarvík nema örstutta stund í einu, sje þar aldrei öðruvísi en sem gestur á hraðri ferð, og þetta er einnig talið mjög óþægilegt.

Jeg bar saman örðugleika Ísafjarðarprestsins og örðugleika hv. þm. N.-Ísf. (S. St.) á því að þjóna brauðum sínum, og gerði jeg það ekki til þess að reyna að gera lítið úr þeim, heldur til að benda á, að viða eru örðug prestaköll, og ef ráða ætti bót á öllu, sem söfnuðum þætti miður fara í þessu efni, yrði það dálaglegur útgjaldaauki fyrir landssjóðinn. Háttv. þm. (S. St.) hefir dvalið á þingi í mörg ár, og hefir það ekki komið að klandri, og er því ekki rjett sú mótbára, að Ísafjarðarprestinum sje meinað að sitja á þingi. Annars tel jeg sjálfsagt, að prestar, sem á þingi sitja, taki upp sömu reglu og læknar, fái menn í sinn stað, meðan á þingsetu stendur. Ef þeir eru eins þarfir og orð er á gert, og jeg vil síst vefengja það, ættu þeir ekki að setja söfnuðina á gaddinn, skilja þá eftir, eins og hirðislausa sauði, um svo langan tíma.

Um guðfræðiritin vil jeg ekki fjölyrða, en þeim kom saman um það, hv. þm. N.-Ísf. (S. St.) og hv. 4. þm. Reykv. (M. J.), að það mundi ekki alt hollur lestur almenningi. Jeg held, að sömu skoðanir gætu orðið á ræðum prestanna, svo alt er þetta varhugavert. Jeg veit ekki hve langt hv. þm. ganga í því að fordæma þessi rit, hvort hv. þm. N.-Ísf. (S. St.) telji t. d. guðfræðirit hv. 4. þm. Reykv. (M. J.) óholla andlega fæðu, og gagnkvæmt. Um það vil jeg ekki deila; jeg læt prestana um það.

Jeg vil svo ekki fjölyrða meira um þetta mál að sinni. Jeg hygg, að menn sjeu búnir að skapa sjer skoðanir og fleiri ummæli því árangurslítil, en þeir, sem eru á móti frv., ættu að verða við tilmælum hv. fhn. (S. St.) og fella það þegar í stað.