29.03.1921
Neðri deild: 29. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 157 í C-deild Alþingistíðinda. (2738)

61. mál, skipting Ísafjarðarprestakalls

Þorleifur Guðmundsson:

Það er dálítið einkennilegt, að það skuli hafa átt sjer stað, að þessi hv. deild skyldi samþ. frv. þetta með miklum meiri hl. Þegar svo stendur á, að alstaðar þarf að spara, og ekkert fje til nauðsynlegra fyrirtækja, þá er það einkennilegt að ganga út á þá braut að stofna til nýrra embætta.

Við höfum þegar nógu marga embættism., og við verðum að gá að því, að þjóðin hefir nóg að bera og að fram leiðslan þolir ekki alla þessa embættafjölgun.

Þess vegna gladdi það mig, þegar frv. til laga kom frá hv. þm. N.-Ísf. (S. St.) og hv. þm. V.-Ísf. (Ó. P ), er fór í þá átt að draga úr þeirri launafúlgu, sem landssjóður verður að gjalda embættismönnunum. Þetta gladdi mig því fremur, sem jeg sá, að hjer átti embættismaður hlut að máli, og að rjettlætið rjeð meiru en ágirndin.

En Adam var ekki lengi í Paradís, og svo fór um gleði mína. Hún hvarf fljótt, er flm. tóku frv. aftur eða stungu því undir stól.

En jeg held mjer fast við þetta, að við verðum alstaðar að spara, og megum þess vegna ekki gegna kvabbi allra þeirra, sem ekki þykjast fá nóg laun. Þau eru orðin nógu há, launin embættismannanna, og ekki vinna þeir allir fyrir þessum þúsundum, sem landssjóður verður að greiða þeim. Framleiðslan gefur svo lítið í aðra hönd. Og jeg vona, að þessum unga og efnilega presti sje ljúft að leggja fram alla krafta sína til starfs í þágu fósturjarðar sinnar og spara fyrir landssjóðinn á þessum neyðartímum.