04.03.1921
Neðri deild: 14. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 186 í C-deild Alþingistíðinda. (2783)

70. mál, kosningaréttur og kjörgengi til bæjarstjórnar og sveitarstjórnar

Jón Þorláksson:

Jeg ætla aðeins að taka fram nokkur atriði, til athugunar fyrir þá hv. nefnd, sem væntanlega fjallar um þetta mál.

Það er þá fyrst, hvort ekki muni ástæða fyrir löggjafarvaldið að setja ein lög um kosningarrjett til sveitarstjórnar um land alt. Þau munu vera nokkuð mismunandi nú. Og jafnframt vil jeg hreyfa því, hvort ekki væri æskilegt, að kosningarrjettur til sveitarstjórna væri sem líkustum skilyrðum bundinn og kosningarrjettur til Alþingis. Í því sambandi vil jeg minnast á kjörskrárnar. Það hefir sýnt sig hjer í Reykjavík, að það er afarmikið verk og vandasamt að semja kjörskrár til Alþingis og bæjarstjórnarkosninga. Nú er tilhögunin, sú, að samin er sjerstök alþingiskjörskrá, sem gildir eitt ár í senn. En fyrir kosningar til bæjarstjórnar er samin önnur sjerstök kjörskrá nokkru áður en kosningarnar fara fram. Þetta fyrirkomulag er afar óheppilegt. En ef það gæti orðið svo, að skilyrði fyrir kosningarrjetti til sveitarstjórna yrðu að miklu leyti þau sömu og til Alþingis, mætti taka til athugunar, hvort þær alþingiskjörskrár, sem samdar eru á hverju ári, gætu ekki, ef til vill með einhverjum viðaukum, gilt líka fyrir kosningar til sveitarstjórnar. Jeg vildi aðeins leyfa mjer að skjóta þessari athugasemd til hinnar hv. nefndar, er fær málið til meðferðar.