05.04.1921
Neðri deild: 35. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 209 í C-deild Alþingistíðinda. (2797)

70. mál, kosningaréttur og kjörgengi til bæjarstjórnar og sveitarstjórnar

Jón Baldvinsson:

Ástæðan er ekki mikil til andsvara, því frá hv. frsm. (E. Þ.) hefir ekkert nýtt komið, umfram það, sem stendur í þessu makalausa nál. hv. allshn. En viðvíkjandi orðum hv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) skal jeg geta þess, að um skattgreiðsluákvæðið varð mikil deila í bæjarstjórninni, þar sem margir bæjarfulltrúar töldu rangt að láta þetta varða missi kosningarrjettar. Það er líka rangt hjá sama hv. þm. (J. Þ.), að þetta sje í núgildandi kosningalögum. Að vísu ætlaði borgarstjóri Rvíkur, ásamt 2 öðrum, sem voru í kjörstjórn við bæjarstjórnarkosningar 1918, að skilja kosningalögin á þessa leið, og ætluðu þá að útiloka fjölda fólks frá því að kjósa. Var harðæri mikið 1917, eins og kunnugt er, og kom þetta því hart niður á alþýðu manna. Varð úr þessu mikið hneykslismál, og endaði með því, að stjórnarráðið skarst í leikinn á síðustu stundu, svo að þessu ranglæti varð ekki komið fram. Taldi stjórnarráðið skilning kjörstjórnar á lögunum rangan og úrskurðaði, eins og rjett var, að nóg væri, ef mönnum hefði verið gert að greiða útsvar. Um síðara atriðið, sem sami hv. þm. (J. Þ.) talaði um, aldurinn, get jeg fullvissað hv. deild, að það þarf ekkert að þrengja 21 árs ákvæðinu, hvorki upp á bæjarstjórn nje bæjarbúa, því jeg veit, að í bæjarstjórn eru 9 af 15 fulltrúum því fylgjandi, þó sumir þeirra væru fjarverandi við atkvæðagreiðsluna, og meðal bæjarbúa sjálfra er munurinn vafalaust enn þá meiri.

Vona jeg svo, að hv. þd. sýni máli þessu þann sóma, sem það á skilið, því það verður um leið þingsins sómi.