09.05.1921
Efri deild: 65. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 222 í C-deild Alþingistíðinda. (2813)

70. mál, kosningaréttur og kjörgengi til bæjarstjórnar og sveitarstjórnar

Sigurður Jónsson:

Jafnvel þótt jeg sje að sumu leyti á sömu skoðun í þessu máli og hv. 2. landsk. þm. (S. E.), verð jeg þó að líta svo á, að til sjeu þau tilfelli, þar sem rjettlátt sje að svifta menn kosningarrjetti vegna þegins sveitarstyrks; en þau má nú víst telja undantekningar. Það er því ekki vegna þess, að jeg treysti mjer tæplega til að fylgja frv. óbreyttu, heldur af því, sem hv. 1. þm. Húnv. (G. Ó.) nefndi, að í frv. er ekki bannað, að hjón eða náin skyldmenni megi sitja í hreppsnefnd samtímis. Þetta álit jeg háskalegt, því það getur leitt til þess, að hreppsnefnd misbeiti valdi sínu. Sveitarstjórn þarf ekki að bera álit sitt og fyrirætlanir undir hreppskilaþing, og það þótt um mikilvægar ráðstafanir sje að ræða, svo sem um mikilvægar ábyrgðir, ýmisleg kaup eða sölu á eignum hreppsins. Sýslunefnd leyfir slíkt venjulega eftir tilmælum sveitarstjórnar, og þá getur alt verið komið í kring áður en það er borið undir hreppsbúa. Ef því hjón og sifjalið skipar eingöngu hreppsnefnd, sem vel getur átt sjer stað, þá leiðir það til einveldis einnar fjölskyldu, og þarf það ekki skýringar við, hversu afarviðsjált slíkt gæti orðið.