17.02.1921
Efri deild: 2. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 268 í C-deild Alþingistíðinda. (2898)

29. mál, einkasala á kornvörum

Atvinnumálaráðherra (P. J.):

Háttv. þm. Snæf. (H. St.) byrjaði ræðu sína með því að minnast á viðskiftahömlurnar. Hann fullyrti hiklaust, að viðskiftahömlurnar hefðu öfug áhrif við sparnað. Þetta er fullyrðing út í bláinn, og mun jeg ekki svara því frekar. Hann gat þess, að það, sem væri mest áríðandi, væri að koma betra skipulagi á bankamálin, og að þetta frv. sje ekki í þá átt. Jeg kannast fyllilega við það, að bankamálið er mikilsvert mál. En hvaða ástæða er til þess að blanda því saman við þetta frv.? Hann fór síðan að tala um einstaka liði þessa máls. Sagði hann, viðvíkjandi fyrstu ástæðunni í athugasemdunum, að hægt væri að útvega betri og ódýrari vörur en ríkisverslun gerði og að nægilegt væri að benda á landsverslunina og reynslu hennar í þessu máli. Þetta er líka fullyrðing út í bláinn.

Jeg held, eins og hv. 2. landsk. þm. (S. E.) kannaðist við, að það sje ekki hægt að neita því, að það sje auðveldara að fá góðar vörur, ef mikið er keypt í einu, því þá er hægra að útvega sjer tryggingar fyrir vörugæðunum, og ekki síst þegar ríkið stendur fyrir kaupunum, að jeg ekki tali um, ef mölun í stórum stíl kemst á í landinu á rúg og hveiti, því langmest vandkvæði eru á um að fá gott, óskemt og ósvikið mjöl. Landsverslunin er einmitt ljós sönnun þess í mörgum tilfellum, að það er hægra fyrir ríkið en einstaka menn að fá góðar vörur og góð kaup, ýmist af því, að ríkið sjálft á í hlut, eða af því að kaupin eru stærri en hjá nokkrum einstaklingi. Jeg get ekki skilið, að nokkur skuli geta haldið því fram í fullri alvöru, að ríkið nái eigi eins góðum vörum og verði á vörum eins og einstakir kaupmenn.

Háttv. þm. (H. St.) mintist á, að ein ástæða væri nægileg móti frv., og það væri fjárkreppan. Hv. 2. landsk. þm. (S. E.) mintist einnig á það, en nokkuð á annan hátt. Jeg geri nú ekki ráð fyrir, að stjórnin dembi þessu á, í trássi við allar kringumstæður. Menn verða að athuga, að frv. er ekki annað en heimild fyrir stjórnina til að kaupa rúg og hveiti og selja hjer, í 2. lagi taka lán og í 3. lagi að birgja landið að hæfilegum birgðum. Og þá fyrst, þegar þetta er nægilega undirbúið, getur komið til mála að hafa einkasölu. Háttv. þm. (H. St.) hefir vist ekki lesið þetta. Því, sem hv. þm. segir viðvíkjandi kostnaðinum, verð jeg að mótmæla, og er auðsjeð, að þar hefir verið málaður fjandinn á vegginn.

Jeg geri alls ekki ráð fyrir, að forðasöfnun komist á, meðan peningakreppan er mjög hörð, t. d. ekki næstu 2 árin, enda er fordæmi fyrir því, að stjórnin geymi slíkar heimildir sem þessa, eftir kringumstæðum. Vjer höfum lög, sem eru hliðstæð þessum, og það eru lög um einkasölu á steinolíu. Hv. þm. Snæf. (H. St.) talaði um, að þetta ætti að vera keypt á þessum tíma. En það er einmitt sökum óhentugra tíma, að jeg geri ráð fyrir, að stjórninni sýnist hentugra að geyma framkvæmdir þar til betur stendur á. (H. St: Það sjest ekki á frv.). Það liggur augljóslega í frv. og er tekið fram í athugasemdunum.

Það er vitaskuld ekki hyggilegt að kaupa birgðir af vörum í einmitt byrjun fallandi verðs. Mjer heyrðist hv. þm. (H. St.) liggja stjórninni á hálsi fyrir það, að landsverslunin hafi legið með óþarfar birgðir af kornvöru og kolum. En mjer þætti gaman að vita, ef hann gæti bent mjer á með rökum, að landsverslunin hafi legið með óþarfar birgðir. Jeg skal taka það fram, að það leit ekki út fyrir, að kolabirgðirnar væru of miklar í haust, er alt útlit var fyrir, að ekki væri hægt að fá nein kol í Englandi. Hvað viðvíkur matarbirgðum landsverslunar, þá er síður en svo, að þær hafi reynst of miklar hingað til. Hefði komið sjer vel, þegar rúgmjölið steig í vetur, að hafa meira af því. Hveitibirgðir voru litlar hjer á landi, þegar hveitiverðið fjell.

Hv. þm. Snæf. (H. St.) endaði ræðu sína með því að halda því fram, að það ætti að vera frjáls verslun í frjálsu landi. Jeg ætla ekki að fara út í það hjer, hvað sje frjáls verslun og hvað sje einokun.

Hv. 2. landsk. þm. (S. E.) endaði sína ræðu einnig á því að tala um frjálsa verslun. það er sá fáni, sem þeir vilja draga að hún. Eins vil jeg geta, og það er það, að það er rangt að orði komist að kalla ríkisverslun einokun. — Einokunin hefir fyrir okkur sögulega þýðingu, niðrandi merkingu, sem alls ekki kemur heim við einkasölu nútíðarríkis í hag almennings. Þessu var alt öðruvísi varið, þá er verslun og atvinnurekstur var bundið og háð einkarjettindum einstakra stjetta og einstakra manna. Þá reis upp herópið frjáls samkepni og braut einokunarhöftin. En hún hefir eigi reynst sá verndargripur fyrir einstaklinginn, smælingjann, sem vonast var eftir. En ríkisverslun í frjálsu landi á að annast hagsmuni þegna sinna, á að vernda einstaklingana fyrir skaða, sem gæti orðið í frjálsri samkepni. Ekki að einoka eða okra, heldur vernda. Þetta er meint með ríkisverslun. Hins vegar álít jeg ekki ríkisverslun yfir1eitt heppilega, þó hún sje haganlegust í þessu tilfelli.

Hv. 2. þm. S.-M. (S. H. K.) fór hlýlegum orðum um frv., og kann jeg honum þakkir fyrir það. Hann kvartaði yfir því, að ekki fylgdi nein áætlun. Það er satt. Hún fylgir ekki, en af mjög skiljanlegum ástæðum. Fyrst og fremst sökum þess, hve verð er stopult nú á þessum tíma. Heldur ekki gott að áætla rekstrarkostnaðinn á meðan svo stendur. En það þarf enginn að efast um það, að verslunin hlýtur að bera sig í höndum ríkisins. Jeg get sagt þetta með fullri vissu, af því að jeg hefi reynslu meðal annars frá því fjelagi, sem jeg hefi stjórnað í mörg ár. Og jeg sje ekki, hvað ætti að vera því til fyrirstöðu, að ríkið gæti rekið kornvöruverslun eins og steinolíuverslun, sem því hefir verið heimilað. Þegar stjórnin tók upp landsverslun, samkvæmt áskorun Alþingis, voru engin lagaákvæði til að fara eftir, og hafa aldrei verið. Í þessu frv. eru þó frekar leiðbeiningar, sem hægt er að glöggva sig á, þegar nauðsyn krefur. Enn fremur eru aths. við frv. þetta álít jeg heppilegra en ítarleg lagafyrirmæli.

Viðvíkjandi rekstrinum úti um land áleit hann ýmsa sjerstaka erfiðleika fyrir ríkið, frekar en aðra, og gerði hann sjer algerlega rangar hugmyndir um það. Auðvitað verður landsstjórnin að ná samkomulagi við kaupmenn og kaupfjelög um húsrúm og annað fleira, og tel jeg engan efa á, að yfirleitt muni það ganga greiðlega að komast að samningum við kaupfjelög og kaupmenn. Hjeraðsbúar munu álíta það sín eigin velferðarmál.

Hv. 2. landsk. þm. (S. E.) mintist á, að um ríkisverslun gæti farið vel, ef stjórnin yrði heppin með valið á manninum, en ef illa tækist til með valið, gæti alt mistekist. Jeg kannast við þetta. Við höfum þess mörg dæmi, að menn mishepnast, sem standa fyrir verslun, jafnvel þeir, sem standa fyrir stærstum verslunum og hafa mest áhrif. En það á ekki að vera örðugt, jafnvel fyrir sjálfan ráðherrann, að líta eftir störfum forstöðumanns þessarar verslunar og auðvelt að víkja honum frá, ef þess gerðist þörf. Annars er þetta að engu leyti örðugri staða en þær, sem póstmeistari, símastjóri, vegamálastjóri o. fl. menn undir stjórnarráðinu, skipa. Jeg játa, að það veltur afarmikið á þeim mönnum, sem stjórnina hafa á hendi, en jeg geri ráð fyrir, að svo verði um hnútana búið, að síst verði örðugra að losa sig við þennan forstöðumann en annan fastan embættismann. Mætti að vísu margt um þetta segja.