02.05.1921
Neðri deild: 60. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 310 í C-deild Alþingistíðinda. (2936)

114. mál, sýsluvegasjóðir

Frsm. (Jón Þorláksson):

Jeg þarf ekki að bæta miklu við greinargerð frv. Það hefir verið svo, síðan vegalögin frá 1907 voru sett og viðhaldsskyldan lögð á sýslufjelögin, að menn hafa fundið til þess, að sýslufjelögin vantaði tekjustofna til þess að standast kostnað við vegamál hjeraðanna.

Við þetta hefir bæst, að nú, síðan mönnum lærðist að nota akvegi, þá hefir vegaþörfin aukist, og hafa mörg sýslufjelög orðið til þess að leggja vegi á sinn kostnað og haldið þeim við. Eru af þessum sökum útgjöld sumra sýslufjelaga til vega orðin svo mikil, að engin von er til, að þau fái lengur undir risið, nema nýir tekjustofnar komi til.

Máli þessu hefir nokkrum sinnum verið hreyft og beint til landsstjórnarinnar í þál.formi, og það síðast 1919, og út af því hefir vegamálastjóri hafi málið til athugunar og samið frv. það, sem hjer liggur fyrir.

Grundvallarhugsunin er að leggja á fasteignaskatt, sem sje hreyfanlegur frá ári til árs, og líka geti verið mismunandi fyrir hina einstöku hreppa sýslunnar.

En verði útgjöldin til vega einhvers sýslufjelags svo há, að óhæfilega háan skatt þurfi til að standast þau öll, þá á landssjóður að hlaupa undir bagga með fjárframlögum, sem fari hækkandi eftir því, hve sýslan leggur háan fasteignaskatt á sig í þessu skyni.