21.02.1921
Neðri deild: 5. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 334 í C-deild Alþingistíðinda. (2966)

15. mál, verðlag

Fjármálaráðherra (M. G.):

Ástæðan til þess, að stjórnin ber frv. þetta fram, er sú, að gert er ráð fyrir, að ábúðar- og lausafjárskatturinn falli niður, en hann er, eins og kunnugt er, miðaður við verðlagsskrá. Að sönnu verður það ekki sagt, að með brottfalli ábúðar- og lausafjárskatts hljóti verðlagsskráin að falla burtu. En af því að verksvið verðlagsskránna fellur að mestu í burtu við brottfall þessara skatta, virðist naumast ástæða til að halda verðlagsskránum, ekki síst þegar það er athugað, hvílíkir gallagripir þær eru orðnar og hvílík fyrirhöfn og kostnaður er þeim samfara. Vitaskuld má þetta frv. ekki ganga fram, nema fasteignaskattsfrv. gangi einnig fram, og þess vegna legg jeg til, að þessu frv. verði vísað til fjárhagsnefndar, svo að það geti fylgt fasteignaskattsfrumvarpinu.