15.02.1921
Sameinað þing: 1. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 47 í B-deild Alþingistíðinda. (30)

Rannsókn kjörbréfa

Frsm. minni hl. 1. kjörbrjefadeildar (Benedikt Sveinsson):

Að eins örstutt athugasemd til skýringar. Það er alls ekki ofsagt, að mörgum hafi verið gert ókleift að neyta kosningarrjettar síns. Kosningin hófst ekki fyr en kl. 1, og síðan var kosið látlaust til kl. 11–12, en samt áttu um 3 þús. kjósendur eftir ókosið. Þessir kjósendur hefðu ekki getað kosið, þó þeir væru allir af vilja gerðir, tíminn leyfði það ekki. Það er að vísu vitanlegt, að sumir þessara manna hafa ekki hirt um að neyta rjettar síns, en hinir hafa líka verið margir, sem ekki gátu, þótt þeir vildu. Jeg kom fjórum sinnum til að kjósa og varð frá að hverfa, en kl. 8 komst jeg loks að. Þá var kjósendastraumurinn strjálari, en þó var kosið stanslaust. Það er víst, að margir hafa ekki verið jafnúthaldsgóðir, enda var komið drápsveður um kvöldið og illfært gangandi mönnum, þótt fullröskir væru, en ófært konum og gamalmennum. Það er með öllu óhæft að haga kosningum svo, að fólk þurfi að vera á rölti langt fram yfir háttatíma, enda vilja fáir svo mikið á sig leggja. Jeg hefi tekið það fram áður, að nær þrjár þúsundir kjósenda neyttu ekki rjettar síns og gátu ekki neytt hans. Þetta verður ekki kent áhugaleysi, því að kosningaundirbúningur hafði verið mjög mikill. Í öðrum kjördæmum er kosningaþátttakan yfirleitt miklu meiri, og má það undarlegt heita, þar sem hjer mun þó mest um fjör og áhuga við kosningar, og menn eru fluttir hjer ókeypis á kjörstað, en í öðrum stöðum tíðkast slíkt ekki, heldur verða menn sumstaðar jafnvel að fara heilar dagleiðir, um fjöll og annað torleiði, til þess að komast á kjörstað.

Um kjörskrárnar þarf jeg ekki að tala langt mál. Allir virðast sammála um, að þeim hafi verið mjög ábótavant, og þó að ekki væru teknar til greina af 1500 kærum nema 670 — sem að vísu er allálitleg tala og sýnir, hve vandlega hefir verið í pottinn búið, — þá er það engin sönnun þess, að ekki hafi vantað fjölda kjósenda annara. Jeg veit um marga merka og mæta menn, sem vantaði á kjörskrá, og þar á meðal einn háttv. þm., sem hjer er staddur, og má eftir því geta sjer til um vandvirkni þá, sem þar hefir átt sjer stað.