17.05.1921
Neðri deild: 71. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 484 í C-deild Alþingistíðinda. (3066)

79. mál, sveitarstjórnarlög

Björn Hallsson:

Jeg get fullvissað hv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) um það, að það er ekki vegna illkvitni við Reykvíkinga að þessi brtt. er fram komin, heldur til þess að samræma sundurleitar skoðanir, eins og jeg gat um áðan. Hins vegar getur auðvitað vel farið svo, að einhverjir Reykvíkingar verði útsvarsskyldir með þessari lagabreytingu, og er ekkert um það að segja, jeg tel það rjettmætt.

Jeg vil ekkert um það fullyrða, hvort þessi till. sje algerlega rjettlát. Mjer líkaði ekki allskostar að binda þetta við lögsagnarumdæmin, en einhver takmörk varð þó að setja, og fann jeg þá ekki önnur heppilegri. Hitt er mönnum eflaust fullkunnugt, og um það hefi jeg sannar sagnir, að Reykvíkingar sumir gera sjer það að atvinnu að leigja slægjur í nágrannahreppum og selja heyið. Fullkomlega er rjettmætt, að á þá sje hægt að leggja útsvar fyrir þessa atvinnu.