17.05.1921
Neðri deild: 71. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 486 í C-deild Alþingistíðinda. (3072)

79. mál, sveitarstjórnarlög

Frsm. (Pjetur Ottesen):

Jeg ætlaði ekki að innleiða umr. um þetta mál nú, en úr því slíkt hefir nú verið gert, þá vil jeg þó ekki alveg sitja hjá.

Hv. flm. brtt. (B. H.) gat þess, að í brtt. sinni væri væru sameinaðar skoðanir okkar hv. 2. þm. Skagf. (J, S.). Þetta er ekki að öllu leyti rjett, en þó felli jeg mig mun skár við þessa brtt. en frv. óbreytt. En helst vildi jeg að lögin frá 1919 hefðu staðið óhögguð.

Jeg vil geta þess, að dæmið, sem hv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) tók, var ekki alveg rjett, samkvæmt brtt. Maðurinn sleppur ekki við útsvar, þótt í sama lögsagnarumdæmi sje, nema hann heyi eingöngu handa búpeningi sínum. Ef hann selur heyið, þá er hann útsvarsskyldur.

Háttv. 1. þm. Reykv. (M. J.) gerði fyrirspurn um það, hvað meint væri með lögsagnarumdæmi í þessu sambandi, og að hann sæi þar engan skyldleika á milli. Lögsagnarumdæmi er sameiginlegur sjóður allra hlutaðeigandi hreppa, og því nokkur sanngirni að miða við það; er það og einnig í samræmi við sum önnur ákvæði sveitarstjórnarlaganna. Það, að miða hjer við lögsagnarumdæmi, getur því vel til sanns vegar færst.

Þótt jeg telji að sjálfsögðu rjettast og sanngjarnast, að breyting sú um þetta efni, sem gerð var á lögunum 1919, sje látin standa óhögguð, þá er því þó ekki að neita, að frv. verður mun aðgengilegra, ef brtt. sú, sem fyrir liggur frá hv. 2. þm. N.-M. (B. H.), verður samþ., því eins og frv. liggur fyrir, nemur það ekki einungis í burtu það, sem vanst með skýringunni eða breytingunni — hvort sem maður á heldur að kalla það — á lögunum 1919, heldur girðir með öllu fyrir að hægt sje að leggja þann skilning í eldri ákvæði laganna, að hægt sje að gera slægjuafnot utanhreppsmanna útsvarsskyld í því hreppsfjelagi, sem atvinnan er rekin í, ef ekki er um raunverulega ábúð að ræða.